Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ítrekar mikilvægi fjölþjóðlegrar samvinnu

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í fjarfundi ríkjabandalags um fjölþjóðasamvinnu (Alliance for Multilateralism) í tengslum við fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sem nú stendur yfir í Genf. 

Á fundinum ræddu ráðherrar frá yfir 50 ríkjum mikilvægi þess að styðja við og efla frekar fjölþjóðlega samvinnu, og var samstaða um að slíkt væri sérstaklega mikilvægt nú á tímum.

Í ávarpi sínu ítrekaði Guðlaugur Þór að alþjóðasamfélagið þyrfti að standa vörð um fjölþjóðakerfið og undirstrikaði mikilvægi þess að ríki tækju höndum saman í baráttunni við alheimsáskorarnir á borð við COVID-19 heimsfaraldurinn, loftslagsbreytingar og við að tryggja mannréttindi í tæknivæddum heimi.

„Heimsfaraldurinn hefur kennt okkur að við verðum að vinna saman á fjölþjóðavettvangi til þess að takast á við alheimsáskorarnir. Saman erum við sterkari,“ sagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Ríkjabandalag um fjölþjóðasamvinnu (Alliance for Multilateralism) var sett á fót á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september 2019 að frumkvæði utanríkisráðherra Frakklands og Þýskalands.

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum