Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. apríl 2021 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Ráðherra ávarpaði fund áheyrnaraðila Norðurskautsráðsins

Ráðherra flutti ávarp sitt á fjarfundinum frá Hofi á Akureyri - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, áréttaði gildi laga og réttar á norðurslóðum og vægi Norðurskautsráðsins í samstarfi um svæðið á ráðstefnu áheyrnaraðila ráðsins sem fram fór í dag. 

Viðburðurinn sem haldinn var í dag er einn sá síðasti sem formennska Íslands í Norðurskautsráðinu stendur fyrir en Ísland afhendir Rússlandi formennskukeflið á ráðherrafundi í Reykjavík sem fram fer í næsta mánuði. Um var að ræða fjarfund með áheyrnaraðilum ráðsins um laga- og stofnanaumhverfi á norðurslóðum. Markmið fundarins var að efla samskipti og samstarf við áheyrnaraðila Norðurskautsráðsins, en eitt af áhersluatriðum íslensku formennskunnar er einmitt að efla og styrkja starfsemi ráðsins. 

Guðlaugur Þór minnti á það í opnunarræðu sinni að þrátt fyrir að norðurslóðir væru eitt ósnortasta svæði jarðar þýddi það ekki að það væri handan laga og réttar. „Þvert á móti lúta norðurslóðir þeim lögum sem gilda í aðildarríkjunum átta og landhelgi þeirra. Þar sem sem þeim sleppir taka alþjóðlegir og svæðisbundnir samningar við. Þar vil ég sérstaklega undirstrika þýðingu Hafréttarsáttmála Sameinuðu Þjóðanna,“ sagði hann í ræðu sinni. 

Ráðherra benti einnig á það að Norðurskautsráðið hefði síðastliðin 25 ár verið helsti vettvangur norðurskautsríkjanna til umræðu og samstarfs. „Það skiptir okkkur öll miklu að Norðurskautssvæðið einkennist áfram af friði, stöðugleika og uppbyggilegri samvinnu. Samþykktir ráðsins kveða skýrt á um að hernaðarmál séu ekki á borði ráðsins og aðildarríkin átta hafa með virkum hætti lagt sitt af mörkum til að koma í veg fyrir spennu á svæðinu,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ráðherra þakkaði loks áheyrnaraðilum Norðurskautsráðsins fyrir gott samstarf undanfarin tvö ár og fyrir þeirra mikilvæga framlag til starfsemi ráðsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira