Hoppa yfir valmynd
3. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Norðurlanda ræddu væntanlegan ráðherrafund Norðurskautsráðsins

Utanríkisráðherrar Norðurlanda á fundi í Borgarnesi árið 2019. - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í fjarfundi með öðrum utanríkisráðherrum Norðurlandanna. Á fundinum gerði Guðlaugur Þór meðal annars grein fyrir undirbúningi ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem fram fer á Íslandi 20. maí næstkomandi. Vonir standa til að sérstök yfirlýsing, svokölluð Reykjavíkuryfirlýsing, verði samþykkt á fundinum, auk stefnu ráðsins til næstu tíu ára. 

„Það er einlæg von mín að okkur takist að merkja 25 ára afmæli Norðurskautsráðsins með því að samþykkja stefnu fyrir ráðið á komandi ráðherrafundi. Vinna við Reykjavíkuryfirlýsinguna lofar einnig góðu,“ sagði Guðlaugur Þór á fundinum. 
Þá sagði hann skipulagningu fundarins miða vel miðað við krefjandi tíma og áður óþekktar aðstæður vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Fundurinn verði augljóslega ekki að sama umfangi og undir venjulegum kringumstæðum. Vegna heimsfaraldursins hefur þátttaka á fundinum í Reykjavík verið takmarkaður við utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna átta, auk ráðherra Færeyja og Grænlands, og samtök frumbyggja. Aðrir taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Þá greindi ráðherra starfssystkinum sínum frá símafundi sínum við Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í síðustu viku. Þar ræddu þeir meðal annars ráðherrafund Norðurskautsráðsins, en Blinken mun leiða sendinefnd Bandaríkjanna á fundinum. Jafnframt ræddu ráðherrarnir öryggismál, mannréttindi og loftslagsmál, en Svíar gegna nú formennsku í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og þá á Noregur sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Auk Guðlaugs Þórs tóku þátt í fundinum Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, en Finnar leiða samstarf utanríkisráðherra Norðurlanda í ár, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar.

 

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta