Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. maí 2021 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um EES-samninginn kynnt á Alþingi

EES-skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra er komin út. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti í dag Alþingi aðra árlega skýrslu sína um framkvæmd EES-samningsins. Umfjöllun um EES-samstarfið með sérstakri skýrslu til Alþingis rímar vel við þá áherslu sem lögð hefur verið á rekstur samningsins á kjörtímabilinu. 

Í skýrslunni er haldið áfram þar sem frá var horfið í skýrslu um framkvæmd EES-samningsins sem ráðherra lagði fram á síðastliðnu löggjafarþingi og gerð grein fyrir framkvæmd samningsins á síðari hluta ársins 2019 og á árinu 2020, auk þróunar mála á fyrstu mánuðum þessa árs, þar sem þess þykir þurfa.

Nokkuð ítarleg umfjöllun er um þá röskun sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft í för með sér á starfsemi Evrópusambandsins og rekstur EES-samningsins sem og ráðstafanir sem gripið hefur verið til á vettvangi EES-samstarfsins vegna faraldursins. Þannig er m.a. fjallað um ágreining EFTA-ríkjanna við ESB vegna reglna sem sambandið setti á síðasta ári um útflutningsleyfi vegna útflutnings á hlífðarbúnaði og nú nýverið vegna útflutnings á bóluefni. 

Enda þótt samstarfið við ESB um viðbrögð við heimsfaraldrinum hafi almennt gengið mjög vel hafa einnig komið upp álitamál vegna ákvarðana sambandsins um að láta reglur þess um útflutningsleyfi ná til EFTA-ríkjanna innan EES vegna útflutnings hlífðarbúnaðar á síðasta ári, og nú nýverið vegna útflutnings bóluefna. Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt þeim ákvörðunum harðlega og bent á að krafa um útflutningsleyfi brjóti gegn EES-samningi. Mótmælum stjórnvalda hefur ítrekað verið komið á framfæri beint við framkvæmdastjórn ESB sem og einstök aðildarríki sambandsins. Þannig átti ráðherra m.a. fjarfund með Valdis Dombrovskis, viðskiptamálastjóra ESB þann 30. apríl sl. þar sem hann ítrekaði kröfu Íslands og í kjölfarið átti forsætisráðherra símafund um málið með Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar sambandsins þann 1. maí sl.

Afrakstur af þessari málafylgju varð sá að framkvæmdastjórn ESB hefur nú gefið út reglugerð sem setur EES EFTA-ríkin aftur á listann yfir þau ríki sem eru undaþegin útflutningseftirliti við útflutning bóluefna. Jafnframt er vísað með skýrum hætti í stöðu EES EFTA-ríkja sem þátttakendur á innri markaðinum. 

Í skýrslunni er einnig gefið heildstætt yfirlit um framkvæmd samningsins á því tímabili sem skýrslan tekur til, þ.m.t. upptöku ESB-gerða í samninginn og innleiðingu þeirra hér á landi. Fram kemur að árangur hafi náðst við að draga úr svonefndum upptökuhalla og innleiðingarhlutfall Íslands helst áfram betra en það hefur verið lengst af gildistíma EES-samningsins. 

Þá er í skýrslunni gerð ítarleg grein fyrir hagsmunagæslu Íslands í EES-starfinu sem hvílir að miklu leyti á sendiráðinu í Brussel. Fjallað er um markvisst endurbótastarf undanfarinna ára sem ætlað er að efla hagsmunagæsluna og bæta upplýsingagjöf, m.a. með uppsetningu EES-gagnagrunnsins og opnun hans að hluta til, sérstakri upplýsingaveitu á EES.is og aukinni þátttöku fagráðuneytanna í starfi sendiráðsins í Brussel. 

Sérstakur forgangslisti í EES-málum leggur grunn að hagsmunagæslunni. Forgangslistinn er uppfærður reglulega og eru 22 mál á nýjum lista sem samþykktur var síðastliðið haust. Eitt brýnasta málið varðar samræmdar sóttvarnaraðgerðir vegna COVID-19, en af öðrum mikilvægum málum má nefna græna sáttmála ESB, stafræna starfsskrá sambandsins, orku- og loftslagsstefnu sambandsins til 2030 og tilskipun sambandsins um starfsemi innstæðutryggingarkerfa (DGS III). Sérstök umfjöllun er í skýrslunni um hvert þessara mála.

Í skýrslunni er enn fremur fjallað um ýmis mál sem hafa verið ofarlega á baugi í tengslum við aðild Íslands að EES-samningnum. Í því sambandi má nefna skoðun Eftirlitstofnunar EFTA á innleiðingu bókunar 35 við samninginn hér á landi í kjölfar breyttrar dómaframkvæmdar og viðræðum Íslands og ESB um annars vegar mögulega endurskoðun á samningi um viðskipti með landbúnaðarvörur og hins vegar bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir. Ráðherra hefur lagt áherslu á að talsvert vanti upp á að jafnvægi sé í samningi við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur og að íslenskar sjávarafurðir njóti fulls tollfrelsis við innflutning til ESB og hefur ráðherra lagt þunga áherslu á að úr þessu þurfi að bæta

Þá er í skýrslunni gerð grein fyrir rekstri Uppbyggingarsjóðs EES. Íslensk stjórnvöld hafa á yfirstandandi tímabili lagt sérstaka áherslu á verkefni á sviðum rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar, orku- og umhverfismála, samfélagslegra umbóta og jafnréttismála. Aukin áhersla er nú lögð á tvíhliða verkefni með hverju viðtökuríkjanna, en það skapar tækifæri til að efla samskipti Íslands og viðkomandi ríkja. 

Loks er í skýrslunni gerð grein fyrir þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB. Þátttaka okkar í samstarfsáætlunum hefur skapað grunn að víðtæku samstarfi íslenskra stofnana, fyrirtækja og einstaklinga við erlenda aðila og í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri þátttöku og undirbúningi vegna áframhaldandi þátttöku á tímabilinu 2021-2027.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira