Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. júní 2021 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

30 milljónir til stríðshrjáðra kvenna og barna í Eþíópíu

UNFPA hefur starfað í Eþíópíu um árabil og gegnir lykilhlutverki þegar kemur að heilbrigðis- og neyðarþjónustu fyrir konur og stúlkur.  - myndUNFPA Ethiopia/Salwa Moussa

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að verja 30 milljónum króna til að bregðast við ákalli Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) vegna mannskæðra átaka í Tigray-héraði í Eþíópíu.

Átökin hafa nú staðið yfir í hálft ár og hafa þúsundir dáið og milljónir borgara hrakist frá heimkynnum sínum. Talið er að rúmlega fimm milljónir manna þurfi daglega mannúðaraðstoð.

Konur og stúlkur eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kynbundið ofbeldi hefur aukist til muna í kjölfar átakanna og hundruð þúsunda kvenna og stúlkna búa við skort á nauðsynlegri vernd og þjónustu. Hefur framkvæmdastjóri UNFPA, Natalia Kanem, lýst þungum áhyggjum ástandinu, þar með talið á skorti á lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þannig geta aðeins sex prósent heilbrigðisstofnana á svæðinu sinnt fæðingarþjónustu í bráðatilfellum.

UNFPA hefur starfað í landinu um árabil og gegnir lykilhlutverki þegar kemur að heilbrigðis- og neyðarþjónustu fyrir konur og stúlkur. Stofnunin annast mæðravernd og fæðingaraðstoð og sérhæfir sig í þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis í vopnuðum átökum.

Ísland hefur stutt UNFPA í fjölda ára, en starfsvið stofnunarinnar tengist áherslum Íslands á sviði jafnréttismála í mannúðarstarfi og þróunarsamvinnu. UNFPA er áherslustofnun í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands ásamt Alþjóðabankanum, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women).

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Jafnrétti kynjanna
 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira