Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. júní 2021 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar Norðurhópsins ræddu öryggis- og varnarmál

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fjarfundi Norðurhópsins í dag. Hernaðaruppbygging Rússlands var til umfjöllunar á fundinum ásamt skilvirkum herflutningum á friðartímum, málefnum Belarús, öryggi 5G-fjarskiptakerfa og grænum vörnum. 

„Viðfangsefni Norðurhópsins endurspegla þær umfangsmiklu breytingar sem hafa orðið á öryggisumhverfi okkar á undanförnum árum og ekki sér fyrir endann á,“ sagði Guðlaugur Þór.

Á fundinum var ákveðið að festa í sessi áherslu Norðurhópsins á loftslagsbreytingar og sjálfbærni hvað varnarmál áhrærir. „Okkar nánustu bandalags- og vinaríki eru að setja sér markmið um að draga úr kolefnisfótspori af hernaðarstarfsemi sinni næstu árin og áratugi. Áhrif loftslagsbreytinga á öryggi ríkjanna er síðan önnur birtingarmynd loftslagsvárinnar sem Atlantshafsbandalagið mun setja í forgrunn á næstu árum,“ sagði Guðlaugur Þór.

 Eistland, sem fer með formennsku í Norðurhópnum um þessar mundir, hefur sett netöryggismál á oddinn í fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál og hefur starfrækt öndvegissetur Atlantshafsbandalagsins um málefnið frá árinu 2008. Á fundinum í dag kynnti fulltrúi öndvegissetursins nýja úttekt um öryggi 5G-fjarskiptakerfa með tilliti til hernaðarstarfsemi.  

Norðurhópurinn er vettvangur reglubundins samráðs líkt þenkjandi ríkja um öryggis- og varnartengd málefni. Hópinn skipa tólf ríki: Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Bretland, Holland, Þýskaland og Pólland.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira