Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. júní 2021 Forsætisráðuneytið, UtanríkisráðuneytiðForsætisráðuneytið

Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins funduðu í Brussel

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti í dag leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sótti einnig fundinn.

Til umfjöllunar á fundinum voru m.a. tillögur Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, sem miða að því að gera bandalagið enn betur í stakk búið til að takast á við öryggisáskoranir og -ógnir á næstu árum. Leiðtogarnir fólu Stoltenberg að vinna tillögur þessa efnis á síðasta fundi sínum í desember 2019. Leiðtogarnir ræddu einnig aukna spennu vegna hernaðaruppbyggingar Rússlands sem og áskoranir sem tengjast vaxandi umsvifum Kína á alþjóðavettvangi.

„Stoltenberg leggur til breiðari nálgun á öryggismál, áherslu á þær ógnir sem fylgja loftslagsbreytingum og mikilvægi þess að takast á við þær. Sömuleiðis leggur hann ríka áherslu á viðnámsþol ríkjanna og á að standa vörð um alþjóðakerfið. Á fundinum í dag var rík samstaða um þessar áherslur. Í innleggi mínu lagði ég sérstaka áherslu á loftslagsvána og mikilvægi þess að við náum árangri í afvopnunarmálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Sterkari Atlantshafstengsl og aukið öryggispólitískt samstarf eru leiðarstefið í tillögunum sem byggja á víðtæku samráði undir merkjum NATO 2030. Í tillögum Stoltenbergs er áhersla lögð á samheldni bandalagsríkjanna í viðbrögðum við breyttu öryggisumhverfi ríkjanna. Ríkari áhersla er lögð á viðnámsþol samfélaga, á áhrif loftslagsbreytinga á öryggi ríkjanna og á að viðhalda tæknilegu forskoti þeirra. Aðildarríkin eru sammála um að standa vörð um alþjóðakerfið, alþjóðalög og þau grunngildi sem bandalagið byggir á, eiga með sér nánara pólitískt samráð og auka stuðning við samstarfsríki. Þá var ákveðið að ráðast skuli í endurnýjun á grunnstefnu bandalagsins frá árinu 2010.

„Mikil samstaða er um að ríkin þétti raðirnar og mæti þeim öryggisáskorunum sem við stöndum frammi fyrir í sameiningu. Þessi samstaða og eindregin skilaboð frá nýjum stjórnvöldum vestanhafs um stuðning þeirra við Atlantshafstengslin eru að mínu mati mikilvægustu skilaboðin af fundinum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Fyrsta aðgerðaáætlun Atlantshafsbandalagsins í loftslagsmálum var lögð fyrir fund leiðtoganna í dag, ný stefna bandalagsins gegn því að kynferðisofbeldi sé beitt sem vopni í átökum sem og ný stefna bandalagsins í netöryggismálum.

Þá átti forsætisráðherra tvíhliða fundi með forsætisráðherra Slóveníu, Janez Jansa, forsætisráðherra Eistlands, Kaju Kallas, og með Ursulu von den Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra átti einnig fund með Sigrid Kaag, utanríkisráðherra Hollands.

Nánar um tillögur framkvæmdastjóra NATO

Stefna bandalagsins gegn því að kynferðisofbeldi sé beitt sem vopni í átökum

Nánar um NATO og netvarnir

 

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira