Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. júní 2021 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á Tidewater-fundi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra - myndHaraldur Guðjónsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sat í dag fjarfund þróunarmálaráðherra aðildarríkja þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD DAC). Margþættar áskoranir vegna heimsfaraldurs, lýðræði og mannréttindi var meðal þess sem hæst bar í umræðum ráðherranna.

Svonefndur Tidewater-fundur þróunarmálaráðherra aðildarríkja OECD DAC fer fram árlega og buðu Írar að þessu sinni til fundarins. Framlög til þróunarsamvinnu náðu sögulegu hámarki árið 2020, ekki síst vegna viðbragða við heimsfaraldri kórónuveiru. Ráðherrarnir voru sammála um að nauðsynlegt væri að nýta fjármuni sem renna til þróunarsamvinnu vel og sýna sveigjanleika til að bregðast við afleiðingum faraldursins. Ráðherrarnir ræddu einnig þær áskoranir sem framlagaríki standa frammi fyrir nú þegar lýðræði og mannréttindi eiga víða undir högg að sækja. 

Á fundinum lagði Guðlaugur Þór áherslu á samstöðu ríkja til að stuðla að framgangi mannréttinda og lýðræðis í samstarfsríkjum. Hann ræddi jafnframt áframhaldandi framlag Íslands til að sporna við alvarlegum og víðtækum afleiðingum faraldursins. „Því miður hefur faraldurinn grafið undan þeim árangri sem náðst hefur í þróunarsamvinnu undanfarin ár. Ísland hefur lagt sitt af mörkum til bóluefnasamstarfs og aðgerða til að sporna við óbeinum afleiðingum faraldursins, svo sem kynbundnu ofbeldi,“ sagði Guðlaugur Þór. „Það er afar mikilvægt að við nýtum þá fjármuni sem við höfum úr að spila sem allra best og nýtum okkar sérþekkingu og reynslu til að stuðla að sjálfbærri þróun og virðingu fyrir mannréttindum og lýðræðislegum gildum.“ 

Á morgun verða umhverfis- og loftslagsmálin í brennidepli á fundinum ásamt líffræðilegum  fjölbreytileika. María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, situr þann hluta fundarins fyrir hönd Íslands.
 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira