Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. júní 2021 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpaði alþjóðamálaráðstefnu

Guðlaugur Þór á fundinum í dag - myndKristinn Ingvarsson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði áherslu á alþjóðasamvinnu og þau lýðræðislegu gildi sem alþjóðakerfið byggist á í opnunarávarpi á ráðstefnunni Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland. Hann sagði borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hafa sannað gildi sitt í heimsfaraldrinum.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytið og Norræna húsið, í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga, Stofnun Stjórnsýslufræða og stjórnmála og Vestnorræna ráðið, gengust fyrir ráðstefnunni.

Í opnunarávarpi sínu ræddi Guðlaugur Þór þær áskoranir sem fylgt hafa heimsfaraldrinum og hvaða lærdóm mætti draga að reynslu undanfarinna missera. „Um leið og þýðing alþjóðlegrar samvinnu hefur líklega sjaldan verið ljósari hefur ástandið líka sýnt fram á að þegar á reynir gildir það allt of oft að hver sé sjálfur sér næstur,“ sagði ráðherra.

Guðlaugur Þór lýsti yfir áhyggjum að sótt væri að þeim lýðræðislegu gildum sem alþjóðakerfið byggði á, oft í skjóli COVID-19, en um leið stæðum við frammi fyrir nýjum áskorunum. „Frjór jarðvegur hefur skapast fyrir falsfréttir meðan farsóttin hefur geisað, oft settar fram af annarlegum hvötum eða til að grafa undan frjálsum lýðræðissamfélögum og samstöðu þeirra. Árvekni og upplýst umræða skipta hér eftir sem hingað til höfuðmáli við að sporna gegn þeirri óværu sem upplýsingaóreiðan er.“

Því næst vék Guðlaugur Þór að árangursríkri alþjóðasamvinnu um bóluefni en líka hvernig faraldurinn hefði truflað samskipti ríkja á milli, dæmi um það væri útflutningshömlur Evrópusambandsins á bóluefni sem bitnaði á EFTA-ríkjunum, þar á meðal Íslandi. „Öflug málafylgja íslenskra stjórnvalda tryggði að reglugerðinni var breytt enda hefði það haft stóralvarlegar afleiðingar fyrir framkvæmd EES-samningsins ef EES-ríkjunum væri mismunað með þessum hætti og yrði að teljast skýrt brot á samningnum,“ sagði Guðlaugur Þór.

Þá rifjaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra upp aðgerðir sem ráðist var í til stuðnings útflutningsgreinunum á tímum heimsfaraldurs og hvernig borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins aðstoðaði þúsundir Íslendinga þegar hann skall á. „Hún hefur heldur betur sannað gildi sitt á COVID-tímum. Árið 2019 voru 679 aðstoðarbeiðnir skráðar hjá henni en í fyrra bárust ráðuneyti og sendiráðum yfir níu þúsund slíkar beiðnir,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í niðurlagi ræðu sinnar ræddi ráðherra svo kosti fjarfunda sem um margt hefðu stuðlað að árangursríkum samskiptum á stjórnmálasviðinu þrátt fyrir COVID-19. Ekkert kæmi þó í staðinn fyrir mannleg samskipti augliti til auglitis.

Alþjóðamálin voru rædd frá ýmsum hliðum á ráðstefnunni, voru alþjóðasamvinna á tímum heimsfaraldurs, falsfréttir og fjölmiðlar á Norðurlöndunum og framtíð alþjóðasamstarfs á dagskrá pallborðsumræðna. Í hádeginu tóku formenn og aðrir fulltrúar stjórnmálaflokkanna á Alþingi þátt í umræðum um alþjóðamál. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sló svo botninn í ráðstefnuna með erindi sínu.

Ráðstefnan var í beinu vefstreymi og má sjá upptöku af því í spilaranum að neðan.

Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? from The Nordic House on Vimeo.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira