Hoppa yfir valmynd
15. september 2021 Utanríkisráðuneytið

Ísland og Svíþjóð efla samstarf í öryggis- og varnarmálum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra undirritar samkomulagið - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Peter Hultqvist varnarmálaráðherra Svíþjóðar undirrituðu í dag sameiginlega yfirlýsingu um samstarf Íslands og Svíþjóðar í öryggis- og varnarmálum. Undirritunin fór fram á fjarfundi ráðherranna, að viðstöddum Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar í Reykjavík, og Hannesi Heimissyni, sendiherra Íslands í Stokkhólmi.

Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að efla samráð og samvinnu til að mæta öryggisáskorunum í nærumhverfi ríkjanna, á Norður-Atlantshafssvæðinu og á norðurslóðum, sem og fjölþáttaógnum. Einnig er áhersla á að auka samráð um netöryggismál og markvissa upplýsingamiðlun og samstarf í verkefnum sem stuðla að framkvæmd öryggisráðsályktunar 1325 um konur, frið og öryggi.

„Nánara samstarf Íslands og Svíþjóðar styður við markmið norræna varnarsamstarfsins og annars fjölþjóðasamstarfs um öryggis- og varnarmál. Ég tel að við Íslendingar höfum mikið fram að færa í samstarfi við Svía og getum einnig lært margt af þeim,“ segir Guðlaugur Þór.

Í framhaldi af undirrituninni áttu ráðherrarnir fund þar sem öryggis- og varnarmál voru til umræðu.

„Almennt hefur samstarf Íslands og Svíþjóðar aukist t mjög á undanförnum og fullyrða má að það hefur ekki verið nánara í langan tíma. Nægir þar að nefna nýlegt samstarf okkar við Business Sweden sem tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu neti viðskiptafulltrúa Svía. Við Hultqvist vorum sammála um mikilvægi þessarar nánu samvinnu ríkjanna og að hana mætti efla enn frekar,“ segir Guðlaugur Þór.

  • Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, undirritar samkomulagið. - mynd
  • Guðlaugur Þór og Pär Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar í Reykjavík. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum