Hoppa yfir valmynd
22. september 2021

Guðni Bragason sendiherra afhendir trúnaðarbréf á Indlandi

Guðni Bragason afhendir Ram Nath Kovind forseta Indlands trúnaðarbréf. Athöfnin fór fram með fjarfundi. - mynd

Guðni Bragason afhenti hinn 22. september Ram Nath Kovind forseta Indlands trúnaðarbréf sem sendiherra á Indlandi. Athöfnin fór fram með fjarfundi. Sendiherra færði forseta Indlands bestu kveðjur Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands og þakkir forsetahjóna fyrir ánægjulega heimsókn indversku forsetahjónanna til Íslands í september 2019.

Sendiherra minntist á að á næsta ári verða fimmtíu ár liðin frá því Ísland og Indland tóku upp stjórnmálasamband árið 1972 og hvatti til að þess yrði minnst með veglegum hætti. Afmælið gæfi gott tilefni til að undirstrika þau málefni og hugsjónir sem þjóðirnar deildu, eins og áherslu á öryggi, lýðræði og mannréttindi, sjálfbæra þróun og nýtingu náttúruauðlinda og markaðshagkerfi, og minnast hinna góðu samskipta með menningarviðburðum. Indland og Ísland hefðu staðið frammi fyrir miklum áskorunum síðustu mánuði vegna COVID-19 faraldursins og sýndi það styrk samfélaga ríkjanna að þau hefðu sigrast á þeim. Alls afhentu fimm sendiherrar trúnaðarbréf við þetta tækifæri.

Sendiráð Íslands í Nýju-Delhí, sem sett var á laggirnar árið 2006, sinnir hagsmunum Íslands á sviði stjórnmála, viðskipta, menningar og borgaraþjónustu. Samskipti ríkjanna síðustu ár hafa verið blómleg og eins og nærri má geta eru nær ótakmarkaðir möguleikar fyrir hendi í samskiptum Íslendinga við þetta fjölmennasta lýðræðisríki í heimi. Indland hefur starfrækt sendiráð í Reykjavík síðan 2008.

  • Ram Nath Kovind forseti Indlands tók við trúnaðarbréfum frá sendiherra Íslands og sendiherrum fjögurra annara ríkja á fjarfundi. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum