Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Roðagyllt ráðuneyti og sendiskrifstofur

Utanríkisráðuneytið lýst upp með roðagylltum lit - mynd

Utanríkisráðuneytið og fjölmargar sendiskrifstofur Íslands erlendis hafa verið lýstar upp með roðagylltum lit í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem hófst í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir sterka stöðu Íslands á sviði jafnréttismála skapa tækifæri til forystu á alþjóðavísu.

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gagnvart konum og markar hann upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10. desember næstkomandi. Í tilefni þessa verða utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg í Reykjavík og sendiskrifstofur Íslands víðsvegar um heiminn lýstar upp með roðagylltum lit á meðan átakið stendur yfir. Aðgerðin er táknræn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis.

Á meðal þeirra sendiskrifsstofa sem lýstar eru upp af þessu tilefni eru sendiráðin í Berlín, Helsinki, Kaupmannahöfn, Tókýó, Moskvu, Peking og Stokkhólmi. Þá er bústaður sendiherra í Washington baðaður roðagylltum bjarma og húsnæði fastanefndar Íslands í Strassborg.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ritar grein í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni Upprætum kynbundið ofbeldi. Þar bendir ráðherra á að kynbundið ofbeldi hafi aukist í yfirstandandi heimsfaraldri og við því sé mikilvægt að sporna:

„Sterk staða Íslands á sviði jafnréttismála í alþjóðlegu samhengi er tækifæri til að gegna leiðandi hlutverki á alþjóðavettvangi. Í því samhengi er mikilvægt að styðja við jafnréttisstarf innanlands og að Ísland leggi sitt af mörkum á heimsvísu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson í grein sinni.

Þar rekur hann jafnframt framlag Íslands á alþjóðavettvangi í þessum efnum, meðal annars forystu í alþjóðlegu aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi í tengslum við átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis en líka á vettvangi tvíhliða þróunarsamvinnu og fjölþjóðlegra stofnana á borð við UN Women, UNICEF og UNFPA.

Kynbundið ofbeldi er eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum og fyrirfinnst á öllum sviðum samfélagins. Þá hefur heimsfaraldur COVID-19 haft í för með sér verulega aukningu á ofbeldi gegn konum um heim allan og því mikilvægara sem aldrei fyrr að stuðla að vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi og sýna samstöðu.

  • Sendiráð Íslands í Tókýó. - mynd
  • Sendiráð Íslands í Berlín. - mynd
  • Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn - mynd
  • Aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk á Grænlandi - mynd
  • Bústaður sendiherra Íslands í Washington er baðaður roðagylltum bjarma. - mynd
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum