Hoppa yfir valmynd
8. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Græn orka og nýsköpun á dagskrá efnahagssamráðs Bandaríkjanna og Íslands

Frá efnahagssamráðinu í dag. Í fremstu röð eru þeir Ragnar G. Kristjánsson skrifstofustjóri og Matt Murray frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna - myndUTN

Nýsköpun og samstarf á sviði grænnar orku voru í brennidepli í árlegu efnahagssamráði Íslands og Bandaríkjanna sem fram fór í Washington í dag.

Matt Murray, yfirmaður deildar á sviði efnahags- og viðskiptamála í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, leiddi fundinn af hálfu Bandaríkjamanna en Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir íslensku sendinefndinni. Vegna heimsfaraldurs var fundurinn með smærra sniði en vanalega og tók hluti þátttakenda þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Á fundinum voru hnattrænar áskoranir á viðskiptasviðinu til umræðu, enduruppbygging eftir kórónuveirufaraldurinn og þær aðgerðir stjórnvalda sem áhrif hafa haft á viðskipti og samgöngur. Þá var rætt um viðskipti almennt, tækifæri til samstarfs og nýsköpunar, skimun fjárfestinga og verndun innviða, einkum á sviði tölvufjarskipta. Einnig ræddu fulltrúar landanna hvernig auka megi tvíhliða samstarf á sviði orkumála og sér í lagi grænna orkulausna í baráttunni gegn frekari hlýnun jarðar.

„Aukið samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði viðskipta- og efnahagsmála er afar brýnt hagsmunamál fyrir Ísland. Í þessu árlega efnahagssamráði felast tækifæri til að skiptast á skoðunum og ræða sameiginleg verkefni af ýmsum toga, meðal annars á sviði nýsköpunar, sem koma fyrirtækjum beggja vegna Atlantsála til góða,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í kjölfar samráðsins.

Efnahagssamráðið, sem sett var á fót árið 2019, gegnir mikilvægu hlutverki sem vettvangur til að skiptast á upplýsingum, skilgreina sameiginlega hagsmuni og efla tvíhliða samskipti á viðskipta- og efnahagssviðinu enn frekar. Á síðasta ári var ákveðið að formfesta samráðið og halda það árlega og hefur þar með skapast mikilvægur vettvangur til að taka reglulega upp mál er varða hagsmuni Íslands og vekja athygli á hindrunum í vegi fyrirtækja og fjárfesta.

Fundinn í Washington í dag sátu fulltrúar stjórnvalda frá utanríkis-, viðskipta- og fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna auk bandaríska sendiráðsins í Reykjavík. Frá Íslandi tóku þátt fulltrúar utanríkisráðuneytis, sendiráðsins í Washington og aðalaræðisskrifstofu Íslands í New York. 

  • Græn orka og nýsköpun á dagskrá efnahagssamráðs Bandaríkjanna og Íslands - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum