Hoppa yfir valmynd
8. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Ísland setur 95 milljónir í Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna

Ísland setur 95 milljónir í Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna - myndUN Women/Pablo Villota

Framlag Íslands til Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) verður 95 milljónir króna á næsta ári. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, greindi frá þessari ákvörðun á framlagaráðstefnu sjóðsins í dag, en Ísland mun veita 45 milljón króna viðbótarframlag auk venjubundins 50 milljón króna framlags sem Ísland greiðir samkvæmt rammasamningi við sjóðinn. 

Í ávarpi sínu á ráðstefnunni benti ráðherra á þá staðreynd að mannúðarþörf hafi aukist umtalsvert undanfarin ár. Áætlað er að 247 milljónir manna muni þurfa á mannúðaraðstoð að halda á næsta ári, sem er um 17 prósent aukning frá yfirstandandi ári. Þá undirstrikaði ráðherra mikilvægi þess að beina sérstakri athygli að konum og stúlkum í allri neyðaraðstoð. 

„Aukin fátækt og hungur hefur alla jafna meiri áhrif á konur og stúlkur og í neyðaraðstæðum. Þær eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir ofbeldi og annarri misnotkun,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars. 

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna sinna mannúðaraðstoð um allan heim en CERF tryggir að lífsbjargandi fjármagn berist hratt og örugglega þangað sem þess er þörf. Þar með eykur sjóðurinn viðbragðsflýti mannúðarkerfis Sameinuðu þjóðanna. Þar að auki leggur CERF áherslu á bæði undirfjármögnuð og gleymd neyðarsvæði. 

Sjóðurinn var settur á laggirnar árið 2006 og heyrir undir Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). Á síðastliðnum 15 árum hefur sjóðurinn veitt um 980 milljörðum króna (7,5 milljarða bandaríkjadala) til stofnana Sameinuðu þjóðanna. Fjármagnið hefur gert CERF kleift að stuðla að fæðuöryggi um tíu milljón manna á ári hverju, tryggt aðgengi tuttugu milljón manna að heilbrigðisþjónustu og átta milljón manna að vatni og hreinlætisaðstöðu. 

Í samræmi við þróunarsamvinnustefnu Íslands, þar sem lögð er áhersla á fyrirsjáanleg framlög til mannúðaraðstoðar, var rammasamningur við CERF endurnýjaður fyrir tímabilið 2020-2023. Ársframlög Íslands til sjóðsins nema um 50 milljónum króna. Heildarframlag Íslands á framlagaráðstefnu CERF fyrir 2022 felur því í sér 50 milljón króna framlagið samkvæmt rammasamningi að viðbættu 45 milljón króna viðbótarframlagi. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira