Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Þórdís Kolbrún ræddi við Antony Blinken

Þórdís Kolbrún ræddi við Antony Blinken í síma nú síðdegis - myndUtanríkisráðuneytið
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra átti í dag símafund með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Blinken óskaði eftir símtali í því skyni að árna Þórdísi Kolbrúnu velfarnaðar í nýju embætti. Ráðherrarnir ræddu jafnframt sameiginleg sjónarmið og gott samstarfs Íslands og Bandaríkjanna, þar með talið á sviði öryggis- og varnarmála, loftslagsmála og viðskipta. Þórdís Kolbrún sagði að almennt væru Ísland og Bandaríkin sammála um þau mál sem væru efst á baugi á alþjóðavettvangi, hvort sem það væru málefni norðurslóða eða mikilvægi lýðræðis og mannréttinda.

„Bandaríkin eru stærsta viðskiptaland Íslands, en tengsl ríkjanna rista mun dýpra. Má þar meðal annars nefna menningu, vísindi, íþróttir og afþreyingu. Ég tel að Íslendingum líði sérstaklega vel þegar þeir heimsækja Bandaríkin, það hefur að minnsta kosti verið mín reynsla, og ég vona að bandarískir ríkisborgarar finni fyrir svipaðri tilfinningu þegar þeir heimsækja Ísland,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars.

Antony Blinken kom til Íslands í maí síðastliðnum til þess að sækja ráðherrafund Norðurskautsráðsins. Hann átti auk þess tvíhliða fundi með þáverandi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og hitti forsætisráðherra og forseta Íslands. Þá heimsótti Blinken meðal annars Hellisheiðarvirkjun þar sem hann kynnti sér meðal annars Carbfix-verkefnið, og öryggissvæðið í Keflavík.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira