Hoppa yfir valmynd
24. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Aðfanga- og orkuöryggi í brennidepli á fundi EES-ráðsins

Mikilvægi lýðræðislegra og stöðugra markaða og aðfanga- og orkuöryggi voru á meðal umræðuefna á fundi EES-ráðsins sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti í Brussel í gær. 

Ráðherra sat auk þess fundi um alþjóðamál þar sem rætt var um innrás Rússlands í Úkraínu og málefni Norðurslóða. Þá átti Þórdís Kolbrún vinnuhádegisverð með Maros Šefčovič, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB sem fer meðal annars með málefni EES-samningsins, ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein.

Samstarf Íslands og hinna EFTA-ríkjanna innan EES við ESB hefur verið sérstaklega náið síðustu mánuði vegna innrásarinnar í Úkraínu. „Afleiðingar tilhæfulausrar innrásar Rússa í Úkraínu hefur minnt okkur hressilega á hversu mikilvægir lýðræðislegir og stöðugir markaðir, ekki síst innri markaður EES, eru og mikilvægt að ríki sem deila gildum standi saman,“ sagði Þórdís Kolbrún á fundi EES-ráðsins er hún vék máli sínu að því hversu varasamt er að vera um of háð viðskiptum með hrávörur og orkugjafa við ríki sem geta verið háð duttlungum valdhafa. „Það er brýnt að við ræðum þessi mál og að við aukum fjölbreytni á framboðshliðinni og í viðskiptum með slíkar vörur. Það er ekkert áhlaupsverkefni en liður í því er að efla alþjóðaviðskiptakerfið og vinna að stöðugleika á mörkuðum,“ sagði utanríkisráðherra og bætti við að hröðun orkuskipta myndi efla orkuöryggi til lengri tíma litið þar sem Ísland hefði meðal annars miðlað reynslu sinni af nýtingu jarðhita.

Á fundinum var einnig til umræðu staða og framkvæmd EES-samningsins. Þar lagði Þórdís Kolbrún áherslu á mikilvægi samningsins og hversu vel hann hefði staðist tímans tönn og að áfram þyrfti að standa vörð um góða framkvæmd hans. Auk þess tók hún upp undirbúning viðræðna um nýtt samningstímabil Uppbyggingarsjóðs EES og áréttaði þar hve mikilvægt það væri fyrir Ísland að markaðsaðgangur til ESB fyrir sjávarafurðir yrði aukinn og að landbúnaðarsamningur Íslands og ESB yrði endurskoðaður. Hvort tveggja hefur utanríkisráðherra tekið upp á fundum sínum með framkvæmdastjórum ESB í Brussel að undanförnu. Einnig fór utanríkisráðherra yfir sjónarmið Íslands vegna tillagna á vettvangi ESB sem varða loftslagsmál og millilandaflug.

Í ferðinni átti Þórdís Kolbrún einnig tvíhliða fundi með Margrethe Vestager, varaforseta og framkvæmdastjóra samkeppnismála og stafrænnar umbreytingar ESB, og Adinu Vălean, framkvæmdastjóra samgöngumála í framkvæmdastjórn ESB. Þá tók utanríkisráðherra þátt í opnunarathöfn hins svokallaða EFTA-húss sem tekið var í notkun á síðasta ári og hýsir EFTA-skrifstofuna, Eftirlitsstofnun EFTA og skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES. Hélt ráðherra stutt ávarp þar.

EES-ráðið kemur saman til fundar tvisvar á ári og er hlutverk þess einkum að vera pólitískur aflvaki við framkvæmd EES-samningsins. EES-ráðið er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðs ESB. Ísland verður í formennsku í EES-samstarfinu seinni hluta árs 2022.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum