Hoppa yfir valmynd
20. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

EFTA-ríkin hefja fríverslunarviðræður við Taíland og Kósovó

1.	Marie-Gabrielle Ineichen-Fleisch, Dominique Hasler, Jurin Laksanawisit, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Janicke Andreassen og Henri Getaz. Mynd: EFTA - mynd

Áskoranir sem alþjóðaviðskiptakerfið stendur frammi fyrir vegna afleiðinga heimsfaraldursins og innrásar Rússlands í Úkraínu og yfirstandandi fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna voru til umfjöllunar á ráðherrafundi EFTA sem lauk í Borgarnesi síðdegis. Þá var fríverslunarviðræðum við Taíland og Kósovó ýtt úr vör. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum sem markar lok eins árs formennsku Íslands í EFTA samstarfinu. 

Ráðherrarnir fordæmdu innrás Rússlands í Úkraínu og lýstu yfir áhyggjum af áhrifum hennar á fæðuöryggi í heiminum. Komu þeir sér saman um að leita leiða til að styðja Úkraínu, meðal annars með þátttöku í refsiaðgerðum gegn Rússlandi. Utanríkisráðherra gerði grein fyrir ákvörðun ríksstjórnarinnar við að fella niður tolla á vörum frá Úkraínu í eitt ár en Alþingi samþykkti frumvarp þess efnis í síðustu viku.

„Það var afar ánægjulegt og mikilvægt að ná að hitta fulltrúa hinna EFTA-ríkjanna,“ segir Þórdís Kolbrún. „Á tímum sívaxandi alþjóðlegrar óvissu, og vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, er mikilvægt að standa vörð um EFTA samstarfið og skuldbindingar okkar til að vinna saman að friði og opnum utanríkisviðskiptum.“

Staða yfirstandandi fríverslunarviðræðna EFTA voru einnig til umræðu á fundinum en með gildistöku fríverslunarsamnings við Indónesíu á síðasta ári nær fríverslunarnet EFTA nú til fjörutíu ríkja eða ríkjasvæða. Jákvæð skref voru tekin í átt að frekari útvíkkun netsins þegar nýjum fríverslunarviðræðum við Taíland og við Kósovó var ýtt úr vör að viðstöddum viðskiptaráðherra Kósovó, Rozeta Hajdari og viðskiptaráðherra og varaforsætisráðherra Taílands, Jurin Laksanawisit. Bæði ríkin eru mikilvægir samstarfsaðilar EFTA-ríkjanna en viðskipti við Kósovó hafa aukist verulega á síðustu tuttugu árum og viðskipti við Taíland hafa á þessum tíma þrefaldast. Þá funduðu ráðherrarnir með aðstoð fjarfundarbúnaðar með Sergiu Gaibu, ráðherra efnahagsmála í Moldóvu til að fara yfir stöðu fríverslunarviðræðna sem stefnt er á að ljúka á þessu ári.

Mikilvægi sjálfbærnisjónarmiða í fríverslunarviðræðum hefur aukist undanfarin ár. EFTA-ríkin fylgjast með virkum hætti með framkvæmd sjálfbærniákvæða í fríverslunarsamningum og hefur samstarf við ráðgjafanefndir EFTA verið eflt í tengslum við þá vinnu.

Í tengslum við ráðherrafundinn áttu ráðherrarnir fund með þingmannanefnd og ráðgjafanefnd EFTA þar sem staða fríverslunarviðræðna og þróun EES-samningsins voru rædd. Um er að ræða mikilvægan og ganglegan vettvang til skoðanaskipta og á milli ráðgjafanefndanna og ráðherranna en samstarf EFTA-ríkjanna við nefndirnar hefur verið að styrkjast á síðustu árum.

Auk Þórdísar Kolbrúnar sátu fundinn: Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, Janicke Andreassen, aðstoðar viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs og Marie-Gabrielle Ineichen-Fleisch, ráðuneytisstjóri í efnahagsmálaráðuneyti Sviss.

  • 2.	Marie-Gabrielle Ineichen-Fleisch, Janicke Andreassen, Dominique Hasler, Rozeta Hajdari, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, og Henri Getaz. Mynd: EFTA

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira