Hoppa yfir valmynd
15. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Nítján nemendur útskrifast frá Landgræðsluskóla GRÓ

Útrskriftarnemendur Landgræðsluskóla GRÓ. - mynd

Landgræðsluskóli GRÓ útskrifaði í gær nítján sérfræðinga, sjö konur og tólf karla, frá átta löndum. Landgræðsluskólinn er eitt fjögurra þjálfunarprógramma sem rekin eru undir GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar undir merkjum UNESCO og er ein af meginstoðum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Markmið miðstöðvarinnar er að byggja upp færni og þekkingu í þróunarlöndunum á sviðum þar sem sérþekking Íslendinga nýtist. Einnig eru starfandi á vegum GRÓ Jarðhitaskóli, Sjávarútvegsskóli og Jafnréttisskóli.

Með nýútskrifaða hópnum í dag er heildarfjöldi nemenda sem lokið hafa sex mánaða námi á vegum GRÓ kominn upp í 1555. Þá hafa 98 lokið meistaragráðu með stuðningi GRÓ, tuttugu doktorsgráðu og á fjórða þúsund setið stutt námskeið á vettvangi.

Nemendurnir nítján koma frá átta löndum: Mongólíu, Kyrgystan, Uzbekistan, Gana, Úganda, Malaví, Lesótó og Nígeríu. Öll eru þau sérfræðingar sem starfa á sviði sjálfbærrar landnýtingar og vistheimtar í heimalöndum sínum. Fjórir nemendanna eru frá Mongólíu og voru sendiherra landsins gagnvart Íslandi, hr. Tuvdendori Janabazar og eiginkona hans, Batsanaa Bayartogtokh, viðstödd útskriftina í gær. Mongólía hefur verið eitt af áherslulöndum skólans frá upphafi og alls hafa 32 nemendur frá landinu útskrifast frá Landgræðsluskóla GRÓ.

Þá voru í útskriftarhópnum tveir nemendur, frá Malaví og Nígeríu, sem starfa fyrir landsvæði sem eru hluti af alþjóðlega netverkinu „Maðurinn og lífhvolfið“ (Man and the Biosphere MAB) á vegum UNESCO. Utanríkisráðuneytið mun styrkja yfir fimm ára tímabil tvo nemendur á hverju ári sem starfa fyrir MAB svæði víða um heim til þátttöku í Landgræðsluskóla GRÓ.

Ávörp fluttu Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, sem færði nemendum hamingjuóskir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla GRÓ og Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, sem hýsir Landgræðsluskólann.  

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum