Hoppa yfir valmynd
20. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hófst með ráðherraviku

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum - myndUtanríkisráðuneytið
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er hafið og er nú haldið í 77. sinn. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í störfum þingsins í dag og hitti utanríkisráðherra nokkurra ríkja. 

Á allsherjarþinginu í ár koma leiðtogar aðildarríkjanna 193 saman í eigin persónu í höfuðstöðvunum í New York í fyrsta sinn í þrjú ár í kjölfar heimsfaraldurs. Innrás Rússlands í Úkraínu er mjög ofarlega á baugi á þinginu sem og hinar fjölmörgu mannúðarkrísur sem heimsbyggðin stendur nú andspænis, bæði af völdum náttúru og manna. Í ljósi hinna alvarlegu stríðsátaka í Evróp eru þau gildi sem alþjóðakerfið hvílir á jafnframt mjög í brennidepli. 

„Það er hollt að minnast þess í upphafi allsherjarþingsins að Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar á sínum tíma beinlínis í þeim tilgangi til að koma í veg fyrir stríð þegar þjóðir heims voru að rísa upp úr öskustó hryllilegrar heimsstyrjaldar. Þessir tímar sem við lifum nú eru prófsteinn á hvort Sameinuðu þjóðirnar, og aðrar stofnanir hins alþjóðlega kerfis, geti viðhaldið vægi sínu og risið undir tilgangi sínum nú þegar á reynir. Ég á von á að þessar spurningar og hvernig við getum styrkt betur stoðir alþjóðakerfisins verði yfir og allt um kring hér í New York næstu daga,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Þórdís Kolbrún og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fylgdust með setningu allsherjarþingsins í morgun og ávarpi Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þá átti utanríkisráðherra tvílhiða fundi með utanríkisráðherrum Singapúr, Austur-Tímor og Síerra Leóne þar sem samskipti Íslands og þessara landa og sameiginlegir hagsmunir voru til umræðu. 

Síðdegis tók Þórdís Kolbrún svo þátt í sérstökum fundi ungra utanríkisráðherra sem Bilawal Bhutto Zardari, utanríkisráðherra Pakistans stóð fyrir. Þar voru þær áskoranir sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir ræddar út frá sjónarhóli yngri kynslóða. Lagði Þórdís áherslu í sínu máli áherslu á að ungt fólk hefði ekki aðeins áhrif á þau sem taka ákvarðanirnar, heldur tæki sjálft að sér þá ábyrgð að taka ákvarðanir sem varða framtíðina. Þá sagði hún að sköpunarkraftur einstaklinganna væri lykillinn að því að leysa úr áskorunum mannkyns og að sá kraftur leysist úr læðingi í frjálsum samfélögum. Hún sagði einnig það blasa við að samfélög sem ekki gæfu stúlkum og konum tækifæri til að leggja sitt af mörkum væru að vannýta mannauð sinn og gera samfélög sín snauðari í efnahagslegu, samfélagslegu og félagslegu tilliti. 

Á morgun taka forsætisráðherra og utanríkisráðherra þátt í ráðstefnu í Washington DC um loftslagsmál og sjálfbæra orkunýtingu ásamt lykilaðilum á þessu sviði frá Bandaríkjunum og Íslandi. Ráðstefnan sem ber yfirskriftina Our Climate Future – U.S. Iceland Energy Summit er skipulögð af hugveitunni Atlantic Council Global Energy Center, Grænvangi og sendiráði Íslands í Washington. Hægt verður að fylgjast með viðburðinum í beinu streymi á vefsíðu Atlantic Council Global Energy Center og hefst hann kl. 14:15 að íslenskum tíma.
  • Fundur með Vivian Balakrishnan, utanríkisráðherra Singapúr
  • Þórdís Kolbrún og Adaliiza Albertina Xavier Reis Magno, utanríkisráðherra Austur-Tímor
  • Þórdís Kolbrún og David J. Francis, utanríkisráðherra Síerra Leóne

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira