Hoppa yfir valmynd
9. desember 2022 Utanríkisráðuneytið

Tilkynnt um nýtt samstarfsverkefni í Malaví um sólarknúið rafmagn

Sendiráð Íslands í Lilongve og EnDev, verkefnastoð þýsku þróunarsamvinnustofnunarinnar GiZ, hafa undanfarin þrjú ár staðið að verkefni í Malaví um að veita skólum og heilsugæslustöðvum aðgang að sólarknúnu rafmagni og orkusparandi eldhlóðum til að draga úr eldiviðarnotkun við eldamennsku. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti í dag um að undirbúningur að nýju og viðameira samstarfsverkefni sé langt kominn. Snemma á nýju ári fjölgi skólum og heilsugæslustöðvum sem fá rafmagnskerfi.

Nýja verkefnið nær til beggja samstarfshéraða Íslands í Malaví, Mangochi og Nkhotakota.

„Malaví er eitt þeirra ríkja sem ber óréttmætan kostnað af loftslagsbreytingum, með eitt minnsta kolefnisfótspor í heimi en á sama tíma á meðal þeirra landa sem verst eru í stakk búin til að takast á við loftslagsbreytingar. Þetta verkefni er því tímabært og fellur fullkomlega að nýrri landaáætlun um þróunarsamvinnu Íslands og Malaví þar sem aðlögun að loftslagsbreytingum verður miðlæg í öllu okkar þróunarstarfi,“ sagði Þórdís Kolbrún í ávarpi í Mangochi í dag.

Í samstarfinu við EnDev fólst líka þróun, framleiðsla og dreifing á „Chitofu 3-in-1“, sem er orkusparandi fiskvinnsluhlóð sem gefur notendum möguleika á að forsjóða, steikja og reykja fisk, eða aðra matvöru, og nota til þess allt að 80 prósent minni eldivið en áður.

Fishland Ladies er sá hópur sem hefur náð bestum árangri í notkun Chitofu hlóðarinnar við fiskvinnslu. Hópurinn samanstendur af ungum mæðrum frá Msaka þorpi, sem flestar voru einstæðar og unnu við fiskvinnslu. Þessi hópur er einn af fjórum ungmennahópum sem EnDev valdi til þess að taka þátt og hefur á aðeins tveimur árum náð undraverðum árangri. Frá þeim er nú seldur unninn fiskur í verslunarkeðjum í borgum Malaví í stað þess að selja aðeins í Msaka þorpinu. Í dag á hópurinn eigin bát sem er afar óvenjulegt fyrir konur, auk þess sem þær reka hárgreiðslustofur, fataviðgerð og fataverslanir. Afkoman nýtist ekki aðeins þeim persónulega því þær gefa ríkulega til baka til samfélagsins og góðgerðamála.

  • Tilkynnt um nýtt samstarfsverkefni í Malaví um sólarknúið rafmagn - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
8. Góð atvinna og hagvöxtur
17. Samvinna um markmiðin
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum