Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Fyrsti fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna undir formennsku Íslands

Fyrsti fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna undir formennsku Íslands - myndJohannes Jansson/norden.org

Stuðningur við Úkraínu, norrænt samstarf og ástand og horfur á Vestur-Balkanskaga og í Afganistan voru helstu umræðuefnin á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlanda í dag. Fundur ráðherranna var sá fyrsti í yfirstandandi formennsku Íslands í norrænni samvinnu.

Afleiðingar innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu og stuðningur Norðurlanda við úkraínsku þjóðina voru í brennidepli á fundinum. Greindi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra meðal annars frá því að Ísland myndi á næstu vikum og mánuðum auka stuðning sinn við Úkraínu með vísan til samþykktra fjárlaga. Þá ræddu þau um stöðu Rússlands í alþjóðlegu samhengi og einangrun  rússneskra stjórnvalda.

„Norðurlöndin eru okkar nánustu vinaríki og reglubundið samráð okkar norrænu utanríkisráðherranna hefur ávallt haft mikla þýðingu. Mikilvægi þessa samstarfs hefur aukist enn frekar á umliðnum mánuðum vegna þeirra óvissu sem ríkir í okkar heimshluta í kjölfar innrásar Rúslands í Úkraínu. Á milli okkar ríkir fágætt trúnaðartraust og samstarfsvilji sem skilar sér í allri okkar alþjóðasamvinnu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra

Ráðherrarnir ræddu jafnframt um ástandið í Afganistan eftir valdatöku talibana fyrir hálfu öðru ári. Þar hafa mannréttindi farið hríðversnandi og hefur það einkum bitnað á konum og stúlkum í landinu. Talið er að um 70 prósent þjóðarinnar þurfi á mannúðaraðstoð að halda á árinu.

„Afganistan hefur verið áhersluland í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands undanfarin ár, bæði hvað varðar þróunaraðstoð og mannúðaraðstoð. Eftir valdatöku talibana hefur áherslan verið lögð á mannúðaraðstoð í gegnum samstarfsaðila Sameinuðu þjóðanna og stuðning við grunnþjónustu í gegnum sérstakan styrktarsjóð Sameinuðu þjóðanna fyrir Afganistan,“ segir utanríkisráðherra.

Þá ræddu ráðherrarnir ástand og horfur á Vestur-Balkanskaga. Vaxandi áhersla er lögð á að styðja samfélagsuppbyggingu þar vegna innrásarinnar í Úkraínu. Málefni Balkanskaga koma meðal annars til kasta Evrópuráðsins sem Ísland leiðir um þessar mundir.

Auk Þórdísar Kolbrúnar tóku þátt í fundinum þau Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur og Johanna Sumuvuori, aðstoðarutanríkisráðherra Finnlands.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta