Hoppa yfir valmynd
26. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra í heimsókn í Vilníus

Þórdís Kolbrún og Gabrielius Landsbergis utanríkisráðherra Litáens - myndUtanríkisráðuneyti Litáens

Staðan í Rússlandi á tímum innrásarstríðs í Úkraínu var umfjöllunarefni ráðstefnu í Vilníus sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í. Hún átti jafnframt fund með utanríkisráðherra Litáens þar sem horfur í alþjóðamálum og tvíhliða samskipti ríkjanna voru efst á baugi.

Ráðstefnan Vilnius Russia Forum fór fram í vikunni en þar var staða mála í Rússlandi í tengslum við innrásarstríðið í Úkraínu til umfjöllunar. Ráðstefnuna sótti fjölbreyttur hópur einstaklinga frá hugveitum, frjálsum félagasamtökum og fræðasamfélaginu, sem og stjórnmálafólk. Meðal þátttakenda voru Garrí Kasparov, Mikael Khodorkovskí og Jan Raczynsky, yfirmaður Memorial-samtakanna sem hlutu friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári.

„Það var mikið hugrekki samankomið í einu herbergi þar sem ég snæddi kvöldverð í gærkvöld og mikill heiður að fá tækifæri til þess að ávarpa þennan einstaka hóp. Þarna var fólk sem hefur þurft að fórna miklu og misst mikið vegna andófs við stjórnvöld í Moskvu. Margt af þessu fólki mótmælir ekki bara meðferðinni á samlöndum sínum undir stjórn Pútíns heldur leggur það ríka áherslu á samstöðu um að Úkraína verði studd til sigurs í innrásarstríði Pútíns,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Á ráðstefnunni gafst tækifæri til eiga opið samtal um stöðu mála í Rússlandi og efla þannig þann þekkingargrunn og það tengslanet sem gerir Íslandi kleift að rækja sitt hlutverk þegar kemur að tjáningarfrelsi og réttindum andófsfólks í þeim löndum Evrópu sem lúta harðstjórn. Utanríkisráðherra ávarpaði þátttakendur á hátíðarkvöldverði.

„Heimsókn mín til Vilníus var liður í því að styrkja traust tvíhliða samband Íslands og Litáen enn frekar og tækifæri til að eiga opið samtal um ástandið í Rússlandi við fólk sem hefur djúpa þekkingu á ástandinu og skoðanir á hugsanlegri framtíðarþróun. Ég hef lagt áherslu á að sýna lýðræðisöflum stuðning enda sýnir þróun heimsmála undanfarin ár svo ekki sé um villst að þegar molnar undan lýðræðisgildum í löndunum í kringum okkur getur það líka haft áhrif á okkur,‘‘ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherra átti í morgun tvíhliða fund með Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáens, þar sem rætt var um áframhaldandi stuðning við Úkraínu, leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Vilníus í sumar og málefni vestanverðs Balkansskaga. Þá var ræddu þau einnig hvernig efla megi samstarf þjóðanna á alþjóðavettvangi, svo sem innan NB8-samstarfsins og innan Sameinuðu Þjóðanna og Eystrasaltsráðsins en ráðherrafundur þess fer fram í Wismar í Þýskalandi í næstu viku. Þau ræddu einnig samstarf Íslands og Litáen varðandi sprengjueyðingarverkefni þar sem unnið hefur verið að þjálfun úkraínskra sérfræðinga.

Þá átti ráðherra einnig óformlegan fund með Sviatlönu Tsikhanouskayu, leiðtoga stjórnarandstöðu Belarús, á skrifstofu lýðræðislegu stjórnarandstöðunnar sem staðsett er í Vilníus.

 

  • Þórdís Kolbrún og Sviatlanu Tsikhanouskaya - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum