Hoppa yfir valmynd
14. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Staða hinsegin fólks í Úganda og stuðningur við Úkraínu til umræðu á fundi með þróunarmálaráðherra Noregs

Anne Beathe Tvinnereim, þróunarmálaráðherra Noregs og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í Ósló. - mynd

Stuðningur við Úkraínu og staða hinsegin fólks í Úganda voru ofarlega á baugi á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Anne Beathe Tvinnereim, þróunarmálaráðherra Noregs, sem haldinn var í Ósló í gær.

Íslensk og norsk stjórnvöld eru meðal þeirra ríkja sem hafa haft sig hvað mest í frammi og gagnrýnt harðlega ný og umdeild lög í Úganda sem herða viðurlög við samkynhneigð. Ráðherrarnir ræddu mögulegar leiðir til að bregðast við þeim mannréttindabrotum sem í lögunum felast og hvernig koma  megi á samtali um málefni og réttindi hinsegin fólks í landinu.

„Það er ömurlegt að sjá hvernig mannréttindi hinsegin fólks í Úganda eru nú fótum troðin. Allar ákvarðanir í þessa veru eru einungis til þess fallnar að ala á fordómum, hatri og útskúfun minnihlutahópa, sem eru engu samfélagi til heilla. Samkynhneigð er enn álitin glæpur í yfir sjötíu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og víða um heim á sér nú stað alvarlegt bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. Bæði Ísland og Noregur hafa beitt sér fyrir umbótum í mannréttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og við munum halda því áfram,” segir Þórdís Kolbrún.   

Ráðherrarnir ræddu sömuleiðis áframhaldandi stuðning við Úkraínu og áætlanir þar að lútandi, en íslensk stjórnvöld hafa veitt á annan milljarð króna til stuðnings Úkraínu frá því að Rússland réðst inn í landið. 

Þá fjölluðu ráðherrarnir jafnframt um samstarf ríkjanna innan Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) en Ísland mun taka sæti í FAO-ráðinu á næsta ári þar sem Noregur á nú þegar sæti. Þá gefst tækifæri til enn nánara samstarfs milli ríkjanna, enda leggja þau bæði mikla áherslu á málefni hafsins. Að lokum var rætt um norrænt samstarf og frekari þátttöku atvinnulífs í uppbyggingu og fjárfestingum í þróunarríkjum, sem er mikilvægur þáttur í fjármögnun Heimsmarkmiðanna. 

Málefni Úkraínu einnig til umræðu á fundi með forseta Alþjóðabankans 

Utanríkisráðherra tók jafnframt þátt í fyrsta fundi ráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) með Ajay Banga, forseta Alþjóðabankans, sem tók við embætti í júní. Löng hefð er fyrir því að forseti Alþjóðabankans fundi árlega með ráðherrum kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, til að fara yfir þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni og koma áherslum kjördæmisins á framfæri innan bankans.   

Breytingar á hlutverki alþjóðlegra þróunarbanka var ofarlega á baugi á fundinum. Mikil umbótavinna á sér nú stað innan Alþjóðabankans,  sem miðar að því að endurskoða alla starfshætti, þar á meðal fjárhags- og rekstrarkerfi í því skyni að  gera bankanum betur kleift að takast á við þær  áskoranir sem þróunarríkin standa frammi fyrir. Málefni Úkraínu voru einnig ofarlega á blaði á fundinum en Alþjóðabankinn hefur gegnt leiðandi hlutverki í fjárhagslegum stuðningi við Úkraínu, ekki síst til að milda áhrif stríðsins á fátækari ríki heims.    

„Alþjóðabankinn hefur um áratugaskeið gegnt lykilhlutverki í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Það er ánægjulegt að sjá hversu kröftug, raunsæ og metnaðarfull áform nýs forseta bankans eru og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs“ segir Þórdís Kolbrún.

  • Utanríkisráðherra ásamt Ajay Banga, forseta Alþjóðabankans. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum