Hoppa yfir valmynd
22. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ásamt Sima Bahous, framkvæmdastýru UNWOMEN. - myndUN Women

Utanríkisráðherra undirritaði fjóra nýja rammasamninga við stofnanir Sameinuðu þjóðanna í vikunni í tengslum við 78. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur sem hæst í New York. Í ráðherraviku allsherjarþingsins koma leiðtogar allra aðildarríkjanna 193 saman og hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótt fjölda viðburða í vikunni auk þess sem hún hefur fundað með utanríkisráðherrum fjölmargra ríkja bæði nær og fjær.

„Ráðherravika allsherjarþingsins býður upp á tækifæri til þess að vinna traust ríkja úr öllum heimsálfum, byggja brýr og styrkja alþjóðakerfið, nú þegar hriktir í stoðum þess. Ísland leggur mikla áherslu á að standa með alþjóðalögum og því kerfi stofnana sem standa um þau vörð,“ segir Þórdís Kolbrún.

Fjórir nýir rammasamningar

Þórdís Kolbrún undirritaði samning við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) til þriggja ára. Samningurinn er umgjörð um víðtækt og vaxandi samstarf Íslands og UNICEF og byggir á bestu starfsvenjum í þróunarsamvinnu sem miða að auknum og fyrirsjáanlegum kjarnaframlögum.

Þá var rammasamningur við Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) framlengdur til þriggja ára. UN Women er ein af fjórum áherslustofnunum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og hafa íslensk stjórnvöld stutt hana ötullega frá því að hún var sett á laggirnar árið 2010.

Í gær skrifaði Þórdís Kolbrún undir rammasamning við Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) um áframhaldandi stuðning íslenskra stjórnvalda við stofnunina til næstu fimm ára. Palestína er eitt af áhersluríkjum í stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu og hafa íslensk stjórnvöld stutt starfsemi UNRWA um áratuga skeið með kjarnaframlögum auk þess sem íslenskir sérfræðingar hafa verið sendir til starfa á vegum stofnunarinnar.

Á mánudag framlengdi utanríkisráðherra samning íslenskra stjórnvalda við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) til þriggja ára. UNFPA er ein af fjórum áherslustofnunum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og samstarfið við stofnunina hefur farið vaxandi undanfarin ár. Stofnunin vinnur að kyn- og frjósemisheilbrigðismálum, aðgengi að mæðravernd og tryggingu frjósemisréttinda. UNFPA er leiðandi í að veita þjónustu við þolendur kynferðisbrota á átakasvæðum.

Samkomulag við Andorra um vinnudvöl ungs fólks undirritað

Fjórir tvíhliða fundir voru á dagskrá ráðherra í dag, þar á meðal með utanríkisráðherra Liechtenstein þar sem komandi formennska landsins í Evrópuráðinu var á dagskrá. Þá fundaði ráðherra jafnframt með utanríkisráðherrum Bútan, Kósovó og Fílabeinsstrandarinnar þar sem tvíhliða málefni sem og staða og horfur í alþjóðamálum voru á meðal helstu umræðuefna.

Á tvíhliða fundi með Andorra í vikunni undirritaði Þórdís Kolbrún samkomulag um vinnudvöl ungs fólks (Youth Mobility) sem gerir ungu fólki frá Íslandi mögulegt að búa og starfa í Andorra í tvö ár, en Ísland hefur þegar gert sambærilega samninga við Bretland, Japan og Kanada. Fyrr í vikunni sótti ráðherra jafnframt fundi með utanríkisráðherrum Panama, Síle og Djibútí. 

Á mánudag átti utanríkisráðherra fund með Derek Chollet, ráðgjafa Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem tvíhliða málefni, varnarmál og málefni norðurslóða voru meðal annars rædd. Þórdís Kolbrún sótti sömuleiðis fund samtakanna International Crisis Group sem vinna að rannsóknum og greiningum á átakasvæðum.

Utanríkisráðherra í ræðustól allsherjarþingsins á morgun

Þessu til viðbótar hefur utanríkisráðherra jafnframt sótt ýmsa fjölþjóðlega viðburði í ráðherravikunni. 
Á þriðjudag flutti ráðherra opnunarávarp á viðburði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, þar sem Ísland er í formennsku, en þar var ný skýrsla um aðgerðir til að binda enda á plastmengun fyrir árið 2040 á dagskrá.  

Á þriðjudag var ráðherra viðstödd viðburð á vegum forseta Malaví. Þar var „vinum Malaví“ þakkað fyrir veittan stuðning og jafnframt farið yfir helstu efnahagsumbætur stjórnvalda eftir ítrekaðar náttúruhamfarir, eftirköst heimsfaraldursins og verðhækkanir vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Malaví er eitt þriggja samstarfslanda Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu.

Á miðvikudaginn undirritaði ráðherra nýjan samning undir hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna (BBNJ) um líffræðilega fjölbreytni og sótti viðburð á vegum Kanada um tilefnislausar fangelsanir. Þá sat ráðherra fund í öryggisráði SÞ þar sem málefni Úkraínu voru til umræðu.

Í gær fór fram fundur norrænna þróunarmálaráðherra en fundurinn er liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Til umræðu voru áhrif innrásar Rússa í Úkraínu á þróunarsamvinnu, leiðir til þess að styrkja tengsl við hið hnattræna suður og hvernig Norðurlöndin geti stillt saman strengi við að efla þátt atvinnulífsins í þróunarsamvinnu.

Þá flutti ráðherra ávarp á ráðherrafundi um Leiðtogafund um framtíðina (e. Summit of the Future). Um er að ræða framtak António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem snýst um hvernig og hvort alþjóðasamfélagið geti gert með sér sáttmála um hvernig stýra megi sameiginlegum hagsmunamálum og skapað réttlæti og jöfnuð fyrir komandi kynslóðir.

Á fimmtudag flutti Þórdís Kolbrún sömuleiðis ávarp á sérstökum viðburði skipulögðum af Evrópusambandinu í tengslum við stöðu mála í Belarús. Þar var samstaða við lýðræðishreyfingu Belarús áréttuð en Svetlana Tsiakhnouskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús, sótti jafnframt fundinn. 

Annað kvöld flytur svo utanríkisráðherra ávarp fyrir allsherjarþinginu. Reiknað er með að Þórdís Kolbrún stígi í ræðustól um kl. 14:30 að staðartíma og verður ræðan sýnd í beinu vefstreymi á vef Sameinuðu þjóðanna.

  • Utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna - mynd úr myndasafni númer 1
  • Utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum