Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra leggur fram skýrslu um bókun 35 við EES-samninginn

Utanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um bókun 35 við EES-samninginn. Skýrslunni er ætlað að vekja umræðu og kalla fram sjónarmið, á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Í skýrslunni eru dregnir fram nokkrir lykilþættir í forsögu og forsendum málsins til að varpa ljósi á þá stöðu sem Alþingi stendur frammi fyrir nú.

Bókun 35 fjallar í meginatriðum um þá skyldu EFTA-ríkjanna innan EES að tryggja stöðu rétt innleiddra EES-reglna gagnvart öðrum landslögum, svo fólk og fyrirtæki fái notið réttar síns samkvæmt EES-samningnum. Bókunin nær ekki til stjórnarskrár. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur haft innleiðingu og framkvæmd bókunar 35 til skoðunar síðan 2011 og komst að þeirri niðurstöðu árið 2020 að hún væri ekki í samræmi við EES-samninginn. Bregðist Ísland ekki við  athugasemdum stofnunarinnar má búast við að stofnunin taki frekari skef í málinu með því að vísa því til EFTA-dómstólsins. Mikilvægt er að forræði stjórnvalda á málinu sé tryggt og lausn þess sé á forsendum Íslands. 

Í kjölfar framlagningar stjórnarfrumvarps á síðasta löggjafarþingi sem varðaði innleiðingu bókunarinnar spannst umræða um tildrög og forsögu þess að ráðist var í að leggja frumvarpið fram í ljósi fyrri afstöðu stjórnvalda í málinu. Með frumvarpinu var leitast við að innleiða bókun 35 með skarpari hætti án þess að koma þyrfti til stjórnarskrárbreytinga. Var það mat helstu sérfræðinga að frumvarpið væri innan marka stjórnarskrár.

Utanríkisráðherra vill með framlagningu skýrslunnar tryggja ítarlega og vandaða umræðu á vettvangi þingsins og jafnframt utanríkismálanefnd, áður en frekari skref verða stigin af hálfu stjórnvalda.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum