Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra undirritar nýjan samning um stuðning við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra undirritar samning um stuðning við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í dag. - mynd

Árlegt framlag Íslands til skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) verður meira en tvöfaldað með nýjum samningi sem Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra undirritaði á fjarfundi með Volker Türk mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í dag. 

Ísland hefur styrkt skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2021 og hafa árleg kjarnaframlög síðustu tvö ár numið 30 m.kr. Nýi samningurinn, sem undirritaður var í dag, felur í sér umtalsverða aukningu á stuðningi Íslands en þar er gert ráð fyrir 80 m.kr. árlegu kjarnaframlagi, auk 15 m.kr. árlegs framlags til þriggja sjóða stofnunarinnar sem vinna að réttindum hinsegin fólks (UN Free & Equal) og styðja við þróunarríki. Samningurinn er til fimm ára (2024-2028) sem er til marks um staðfastan stuðning Íslands við starfsemi Sameinuðu þjóðanna fyrir mannréttindum í heiminum. 

„Skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna er leiðandi stofnun um verndun mannréttinda á heimsvísu og hana er mikilvægt að styðja. Það var því einkar ánægjulegt að undirrita endurnýjaðan samning við stofnunina í dag enda eiga mannréttindi víða undir högg að sækja nú um stundir,“ sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. Bjarni sagði samninginn einnig vera hluti af góðu samstarfi við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna á vettvangi mannréttindaráðsins í Genf en Ísland er í framboði til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025 til 2027.

Á fundinum ræddu Bjarni og Türk ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og í Úkraínu og bága stöðu mannréttinda í Afganistan og Íran. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að tryggja þyrfti virðingu fyrir mannréttindum á alþjóðavísu og alþjóðlegum mannúðarlögum. Þar að auki var þátttaka Íslands á vettvangi mannréttindaráðsins rædd og fagnaði Türk framboði Íslands til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025-2027. 

Skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna er leiðandi stofnun um verndun mannréttinda í heiminum. Verkefni stofnunarinnar er að varpa ljósi á og þróa viðbrögð við mannréttindaáskorunum, annast rannsóknir og tæknilega ráðgjöf, veita upplýsingar og bera uppi málsvörn á sviðinu. Stofnunin leggur áherslu á hlutlæga umræðu um mannréttindi, aðstoðar stjórnvöld að uppfylla skyldur sínar og styður einstaklinga sem krefjast réttar síns. Starfsemin byggir á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum lykilsamningum og yfirlýsingum.

  • Frá undirrituninni í dag. - mynd
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum