Hoppa yfir valmynd
21. mars 2024 Utanríkisráðuneytið

Sóknarfæri í skugga áfalla og ný tækifæri ofarlega á baugi í ávarpi ráðherra á ársfundi Íslandsstofu

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ávarpar ársfund Íslandsstofu í gær. - myndSigurjón Ragnar

Sterk staða efnahagsmála, blómleg nýsköpun, óþrjótandi sóknarfæri og mikilvægi þess að snúa áföllum landinu í hag var til umfjöllunar í ávarpi Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu sem haldinn var í Grósku í gær. 

„Hér á Íslandi er mikill hagvöxtur og lítið atvinnuleysi. Við erum ung og vel menntuð þjóð. Nýsköpun er í miklum vexti samhliða stöndugum rótgrónum atvinnugreinum. Hér verða til stór alþjóðleg fyrirtæki sem bjóða upp á spennandi störf. Framtíðin er björt á Íslandi og tækifærin óþrjótandi,“ sagði Bjarni meðal annars í ávarpi sínu. 

Þá sagði hann viðvarandi verkefni að tala máli Íslands á alþjóðavettvangi til að styrkja ímynd landsins og sýna fram á ótvíræða kosti þess að ferðast og fjárfesta á Íslandi. Landið hafi góða sögu að segja þegar komi að því að snúa áföllum þjóðinni í hag, líkt og í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Á sama tíma og landsmenn standi þétt við bakið á Grindvíkingum, þurfi skilaboð landsins vegna eldsumbrotanna að vera skýr. 

„Að hingað sé óhætt að koma, daglegt líf haldi áfram utan gossvæðisins og það sé beinlínis eftirsóknarvert að heimsækja land þar sem náttúruöflin eru virk,“ sagði Bjarni. „Samstarf utanríkisráðuneytisins við Íslandsstofu og Ferðamálastofu hefur reynst mikilvægt og farsælt í þessum efnum, og við megum hvergi láta deigann síga í þeirri vinnu.“ 

Þá undirstrikaði ráðherra mikilvægi þess að á sama tíma og áfram sé hugað að mikilvægum nærmörkuðum Íslands fyrir tilstuðlan EES-samningsins sem verður 30 ára á árinu, þurfi Íslendingar sömuleiðis að vera á tánum gagnvart nýjum tækifærum og nýjum mörkuðum. Bjarni nefndi í því samhengi nýgerðan fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Indlands.   

„Það þarf ekki að hafa mörg orð um tækifærin sem felast í auknum viðskiptum útflutningsþjóðar eins og Íslendinga við slíka þjóð. Hagkerfið er það fimmta stærsta í heimi, millistéttin vex hratt og Indverjar stefna enn hærra og eru bæði bjartsýnir og stórhuga,“ sagði Bjarni. „Sóknarfærin sem við þekkjum nú eru aðeins sýnishorn af því sem getur orðið ef við nýtum tækifærin sem fylgja samningi við eitt stærsta og hraðast stækkandi hagkerfi í heiminum.“ 

Að endingu minntist ráðherra á það sem skeri Ísland úr; fólkið sem byggir landið.  

„Við eigum sendiherra Íslands í íþróttafólki, tónlistarfólki, rithöfundum, leikurum og öðrum sem fara sigurför um heiminn,“ sagði Bjarni og minntist sérstaklega á árangur  tónlistarkonunnar Laufeyjar undanfarin misseri. „Samstarf stjórnvalda og Íslandsstofu í menningarmálum og markaðsstarfi hefur verið gott í gegnum árin og skipt miklu máli í árangri okkar fólks. Að endingu er það þó þrautseigja og krafturinn í einstaklingunum sjálfum sem fleytir þeim áfram, í þessum efnum líkt og öðrum.“ 

  • Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ávarpar ársfund Íslandsstofu í gær. - mynd
  • Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ávarpar ársfund Íslandsstofu í gær. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum