Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Byggingar úr endurunnu plasti rísa í Síerra Leóne

Samstarfsmenn frá staðbundnum félagasamtökum og UNICEF standa við grunn að almenningssalerni þar sem múrsteinar úr endurunnu plasti eru notaðir í bygginguna. - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa  stutt við verkefni á sviði vatns- og hreinlætismála í afskekktum sjávarþorpum Síerra Leóne frá árinu 2018, í samstarfi við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og þarlend stjórnvöld. Samstarfið við UNICEF á sviði vatns- og hreinlætismála er eitt af lykilverkefnum sendiráðs Íslands í Freetown. 

Þörfin fyrir bætt aðgengi að vatns- og hreinlætisaðstöðu er mikil í Síerra Leóne, sérstaklega í fiskimannasamfélögum. Með samstarfinu stuðlar Ísland að bættum aðgangi viðkvæmra fiskimannasamfélaga að hreinu vatni og hreinlæti en verkefnið kemur til með að veita rúmlega 53 þúsund manns í 16 samfélögum aðgang að hreinu vatni og viðunandi hreinlætisaðstöðu.  

Auk áskorana tengdum aðgangi að vatni- og hreinlæti hefur plastmengun töluverð áhrif á lífsviðurværi samfélaga í sjávarþorpunum. Enn fremur setur plastið bæði fæðuöryggi og efnahag Síerra Leóne í hættu. Sem hluti af verkefninu hafa verið settar upp tvær endurvinnslustöðvar í þorpunum Tombo og Konakrydee. Þar hafa ungmenni verið þjálfuð í hvernig nýta megi plastúrgang og annað sorp til framleiðslu, t.d. á múrsteinum og orkusparandi eldhlóðum. Er plasti m.a. safnað af nærliggjandi ströndum og í samfélögum sem taka þátt í verkefninu.  

Þannig eru múrsteinar sem búnir eru til í endurvinnslustöðvunum nú m.a. nýttir til að byggja húsnæði fyrir salernisaðstöðu við nærliggjandi grunnskóla og þá hyggst UNICEF nýta múrsteinana í fleiri byggingar á komandi misserum. Lagt er upp með að allar byggingar innan verkefnisins séu umhverfisþolnar og með aðgengi fyrir fatlað fólk.  

„Samstarfið við UNICEF hefur gengið vel og það er afar ánægjulegt að sjá hvernig plastmengunin fer minnkandi í samfélögunum sem verkefnið nær til. Það er ljóst að það eru sóknarfæri á þessu sviði sem nýta má betur og það er frábært fyrsta skref að sjá byggingar rísa úr endurunnu múrsteinunum“ segir Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Síerra Leóne.  

Starfsfólk endurvinnslustöðvanna hefur í nógu að snúast og oft og tíðum er svo mikil eftirspurn eftir framleiðslunni að ekki er hægt að mæta henni. Af þessum sökum eru hlutaðeigandi samfélög hvött til að safna meira plasti til endurvinnslu og skipuleggja reglulega söfnunardaga  í þeim tilgangi að þrífa strandlengjuna og nærumhverfið og þannig sjá endurvinnslustöðinni fyrir efni til frekari framleiðslu.

  • Byggingar úr endurunnu plasti rísa í Síerra Leóne - mynd úr myndasafni númer 1
  • Byggingar úr endurunnu plasti rísa í Síerra Leóne - mynd úr myndasafni númer 2
  • Byggingar úr endurunnu plasti rísa í Síerra Leóne - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum