Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland eykur framlög sín til mannúðarmála í Súdan

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sótti fundinn og tilkynnti um framlög Íslands. Hér er hann ásamt utanríkisráðherrum Frakklands og Þýskalands. - myndUtanríkisráðuneyti Frakklands.

Alvarleg staða mannúðarmála í Súdan var meginefni alþjóðlegrar framlagaráðstefnu sem fram fór í París í gær. Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sótti fundinn fyrir Íslands hönd og tilkynnti um samtals 140 m.kr. framlag íslenskra stjórnvalda til mannúðarstarfs í Súdan á næstu tveimur árum.

„Súdanska þjóðin hefur gengið í gegnum ólýsanlegar hörmungar undanfarið ár og stór hluti þjóðarinnar hrakist á flótta. Fregnir af kynþáttabundnu og kynferðislegu ofbeldi, morðum og limlestingum sýna því miður að alþjóðleg mannúðarlög og mannréttindalög eru virt að vettugi. Það er mikilvægt að Ísland geti lagt af mörkum til mannúðarstarfs í landinu og tekið undir ákall alþjóðasamfélagsins um vopnahlé og mannúðaraðgengi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Utanríkisráðherrar Frakklands og Þýskalands voru gestgjafar ráðstefnunnar ásamt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ávarpaði fundinn og fulltrúar helstu mannúðarstofnana Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaráðs Rauða krossins og frjálsra félagasamtaka voru á meðal þátttakenda.

Að mati Sameinuðu þjóðanna þarf ríflega helmingur súdönsku þjóðarinnar, yfir 25 milljónir manna, á mannúðaraðstoð að halda, tæplega helmingurinn börn. Átján milljónir eru á barmi hungursneyðar, tíu milljónum fleiri en áður en átökin brutust út. Yfir átta milljónir íbúa landsins hafa þurft að flýja heimkynni sín, að stórum hluta konur og börn. 

Á fundinum tilkynnti ráðuneytisstjóri um framlag Íslands til mannúðarmála í Súdan sem mun nema 70 m.kr. á ári á tímabilinu 2024-2025 og skiptast milli tveggja áherslustofnana í mannúðarstarfi Íslands, Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). 

WFP er stærsta stofnun Sameinuðu þjóðanna á sviði fæðuöryggis og gegnir lykilhlutverki við útdeilingu mataraðstoðar á átakasvæðum í Súdan. OCHA semur um aðgengi mannúðarstofnana á vettvangi og samhæfir starf þeirra. Úthlutað er úr svæðasjóði OCHA til innlendra og alþjóðlegra mannúðarstofnana og frjálsra félagasamtaka á sviði mannúðarmála, einkum til mataraðstoðar, heilbrigðis- og hreinlætismála, menntamála og verndar.

Þetta er í annað sinn sem íslensk stjórnvöld veita viðbótarframlag vegna stöðu mannúðarmála í Súdan, en utanríkisráðherra tilkynnti í júní 2023 um 50 m.kr. viðbótarkjarnaframlag til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) á framlagaráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna. 

Þá hefur neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er aðili að, úthlutað 35 milljónum bandaríkjadala til mannúðar- og neyðaraðstoðar vegna Súdan það sem af er þessu ári, en árið 2023 námu úthlutanir vegna Súdan samtals 53 milljónum bandaríkjadala, eða sem nemur átta prósent allra úthlutana úr sjóðnum árið 2023.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum