Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2024 Utanríkisráðuneytið

Landgræðsluskóli GRÓ útskrifar 23 sérfræðinga frá Afríku og Asíu

Útskriftarhópurinn úr Landgræðsluskóla GRÓ. - myndStjórnarráðið

Landgræðsluskóli GRÓ útskrifaði í vikunni 23 sérfræðinga á sviði sjálfbærrar landnýtingar og endurheimtar vistkerfa. Nemendurnir koma frá níu samstarfslöndum skólans í Afríku og Asíu. Um er að ræða fyrsta skiptið þar sem nemendur frá Kenía útskrifast úr skólanum en hinir nemendurnir eru frá Gana, Kirgistan, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Nígeríu, Úganda og Úsbekistan.

Landgræðsluskólinn er einn fjögurra skóla sem starfræktir eru á vegum GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, en hinir starfa á sviði jafnréttis, jarðhita og sjávarútvegs. GRÓ starfar undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Alls hefur nú 221 nemandi útskrifast úr sex mánaða námi við Landgræðsluskóla GRÓ. Samtals hefur 1.741 sérfræðingur útskrifast úr fimm til sex mánaða námi í GRÓ-skólunum fjórum.

Landgræðsluskóli GRÓ er hýstur í Landbúnaðarháskóla Íslands og fór útskriftarathöfnin fram í húsnæði skólans á Keldnaholti. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, flutti ræðu við útskriftina og færði nemendum hamingjuóskir utanríkisráðherra, ásamt Berglindi Orradóttur, starfandi forstöðumanni Landgræðsluskóla GRÓ. 

Tveir nemendur fluttu ávarp fyrir hönd útskriftarhópsins. „Á meðan á dvöl okkar stóð höfum við orðið vitni að því hve víðtæk áhrif landhnignunar geta verið fyrir umhverfið, efnahagslífið og ekki síst líf fólks. Reynsla Íslands hefur sýnt okkur að með yfirgripsmikilli þekkingu og réttri færni er hægt að bregðast við áskorunum og stuðla að jákvæðum breytingum.  Ég er þess fullviss að við búum nú yfir nauðsynlegri þekkingu og færni til að takast á við landhnignun á staðbundnum, svæðisbundnum og alþjóðlegum vettvangi,“ sagði Doston Tuvalov frá ríkisháskólanum í Samarkand í Úsbekistan.

Mercy Nyambura Ngure frá ráðuneyti vatns-, hreinlætis- og áveitumála í Kenía, tók undir varðandi hversu vel námið mun nýtast nemendum í störfum sínum heima fyrir. „Nú þegar við snúum aftur heim eigum við eftir að standa frammi fyrir áskorunum, en jafnvel á okkar erfiðustu stundum skulum við muna seiglu birkitrjánna. Já, við getum og við munum endurheimta vistkerfin okkar!“

Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, og Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, afhentu nemendum útskriftarskírteinin og sleit Ragnheiður jafnframt athöfninni. 

Útskriftarhópurinn var sá sautjándi frá stofnun skólans árið 2007. Nemendur koma frá samstarfsstofnunum Landgræðsluskólans, sem eru t.d. ráðuneyti, umhverfisstofnanir, héraðsstjórnir, félagasamtök og háskóla- og rannsóknastofnanir. Líkt og síðustu ár sóttu námið tveir sérfræðingar sem starfa á vistvöngum sem tilheyra verkefninu Maðurinn og lífhvolfið (e. Man and Biosphere) á vegum UNESCO. Allar eiga samstarfsstofnanirnar það sameiginlegt að vinna að málefnum tengdum sjálfbærri landnýtingu, endurheimt vistkerfa og landvernd.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum