Hoppa yfir valmynd
28. september 2024 Utanríkisráðuneytið

Samtakamáttur aldrei mikilvægari en nú

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra úr ræðustól allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York. - myndSameinuðu þjóðirnar

Virðing fyrir mannréttindum, einstaklingsfrelsinu og alþjóðalögum voru leiðarstef í ávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, sem hún flutti á 79. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Þá voru þær áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir nú um stundir, meðan stríð geisa og víða er gerð aðför að lýðræðinu utanríkisráðherra sömuleiðis ofarlega í huga.

Linnulausar árásir á einstaklingsfrelsið

Þórdís Kolbrún sagði nýrri tækni nú beitt við að grafa undan trausti á lýðræðislegum stofnunum, dreifa tortryggni og ótta og kynda undir örvæntingu og reiði meðal almennings. 

„Það er verið að grafa undan einstaklingsréttindum sem hafa reynst svo mikilvæg fyrir gangverk lýðræðislegra samfélaga,“ sagði Þórdís Kolbrún. Fyrst og fremst þurfi að vernda frelsi og málfrelsi einstaklinga, en yrkjar, „bottar“, sem nýttir eru til að grafa undan samfélögum, hafi ekkert tilkall til slíkra mannréttinda eða frelsis eðli málsins samkvæmt.

Virðing fyrir alþjóðalögum grundvöllur friðar

Ólöglegt innrásarstríð Rússlands í Úkraínu var fyrirferðarmikið á allsherjarþinginu líkt og síðustu tvö ár. Þórdís Kolbrún segir rússnesk stjórnvöld hafa brotið allar grundvallarreglur stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna með innrásinni sem og hótunum um beitingu kjarnavopna. 

„Það er [Pútín] sem hóf þetta tilgangslausa stríð. Og það er á valdi Kremlar að binda enda á það, og það hvenær sem er, með því að draga herlið sitt til baka af því landsvæði sem er alþjóðlega viðurkennt að tilheyri Úkraínu,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Þá vék utanríkisráðherra orðum sínum að átökunum sem nú geisa fyrir botni Miðjarðarhafs. Ísland hafi fordæmt hryðjuverkaárás Hamas afdráttarlaust og ítrekað kallað eftir lausn gísla á Gaza. Skýlaus brot á mannúðarlögum hafi verið framin í átökunum sem fylgdu í kjölfarið. Ekkert ríki sé hafið yfir alþjóðalög.

„Ísland fordæmir öll brot á alþjóðalögum, þar með talið mannúðarrétt. Alþjóðalög fela ríkjum heilög réttindi, en sömuleiðis, heilagar skyldur. Þetta verður að umgangast af virðingu,“ sagði Þórdís Kolbrún. „Við skorum enn og aftur á alla aðila að samþykkja tafarlaust vopnahlé og forðast allt það sem getur leitt til frekari stigmögnunar. Einungis þá er hægt að stika þá pólitísku leið til friðar; stofnun tveggja ríkja sem búi hlið við hlið við frið og öryggi.“

Í yfirstandandi átökum hefur heimurinn orðið vitni að takmörkunum á bráðnauðsynlegri mannúðaraðstoð til Gaza. „Þetta er óviðunandi,“ sagði ráðherra.

Grafalvarleg staða í Líbanon hefur verið fyrirferðamikil á allsherjarþinginu og sagði ráðherra að stigmögnun átakanna undanfarinna daga geta leitt til enn frekari hörmunga. Nú yrði átökum að linna.

Mannréttindi lykillinn að velsæld

Ísland sækist eftir sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025-2027, en kosning fer fram þann 9. október næstkomandi. „Við ákváðum að bjóða okkur fram af þeirri djúpu sannfæringu að virðing fyrir mannréttindum og réttarríkinu, réttlæti og sanngirni séu lykilatriði í velmegunarsamfélagi,“ sagði Þórdís þegar hún vék að framboði Íslands í ræðu sinni.

Rýr hlutur kvenna meðal framsögumanna á allherjarþinginu hefur vakið athygli. Þannig var Þórdís Kolbrún ein aðeins nítján kvenna sem ávörpuðu þingið í ár. Í ávarpi sínu kvaðst Þórdís Kolbrún hugsi yfir því hve skammt á leið alþjóðasamfélagið væri í raun komið í jafnréttismálum. Vék hún þá orðum sínum að frelsistakmörkunum kvenna og stúlkna í Afganistan.

„Það er ofar mínum skilningi að á þessum upplýstu tímum séu enn til samfélög manna þar sem stúlkum og konum er meinað að ganga í skóla. Að það sé til samfélag sem niðurlægir helming þjóðar sinnar og bannar litlum stúlkum að hlæja á almannafæri, konum að taka þátt í samræðum utan veggja heimilisins og refsar þeim fyrir það,“ sagði Þórdís Kolbrún. Ísland sé hluti af  fjölbreyttum hópi ríkja sem styður aðgerðir um að talibanar verði látnir sæta ábyrgð á brotum sínum á alþjóðlegum samningi um afnám alls misréttis gagnvart konum.

Þórdís Kolbrún lagði áherslu á mannréttindi hinsegin fólks í ávarpi sínu, sem víða séu nú fótum troðin. Hún sagði vilja Íslands standa til þess að spyrna gegn slíkri afturför, bæði í mannréttindaráðinu sem og í þróunarsamvinnu.

„Ég get ekki skilið af hverju fólk hefur ekki frelsi til að elska og vera elskað eins og það er. Einstaklingsfrelsi og hamingja ætti aldrei að valda stjórnmálamönnum og stjórnvöldum áhyggjum eða leyfi til að berja á réttindum einstaklinga. Það eru önnur raunveruleg vandamál sem krefjast úrlausnar.“

Stefna Íslands í þróunarsamvinnu styður við markmið um útrýmingu fátæktar, virðingu fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði, og minntist utanríkisráðherra á þetta í ávarpi sínu. Þá leggi Ísland áherslu á framgang jafnréttis og borgaralegra réttinda. Þá sé mikill fjöldi fólks á vergangi í heiminum mikið áhyggjuefni. „Það kemur í hlut okkar allra að styðja við það mikilvæga starf Sameinuðu þjóðanna, og annarra samstarfsaðila, að takast á við þessa skelfilegu stöðu mannúðarmála.,“ sagði hún.

Málefni hafsins og gildi alþjóðlegrar samvinnu

Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún að alþjóðasamfélagið verði að bregðast við fjölþættum afleiðingum loftslagsbreytinga og þeim áskorunum sem þær skapa. Nefndi hún að heilbrigði sjávar, og jarðarinnar, skipti sköpum fyrir efnahagslega velmegun og velsæld. Í því samhengi minnti hún einnig á þýðingu hafréttar fyrir ríki eins og Ísland. 

„Þess vegna er það mikið áhyggjuefni að nú sé grafið undan hafrétti, meðal annars í Suður-Kínahafi. Við skorum á öll aðildarríki að standa við skuldbindingar sínar og starfa eftir alþjóðalögum,“ sagði hún.

Í lok ávarpsins sagði Þórdís Kolbrún að frá stofnun Sameinuðu þjóðanna hafi alþjóðakerfið aldrei staðið frammi fyrir jafn mörgum áskorunum og nú. Alþjóðleg samvinna sé eina leiðin til að koma í veg fyrir frekari þróun til hins verra sem muni einungis leiða til frekari neyðar og átaka ef ekkert verður að gert.

„Við verðum að tryggja að Sameinuðu þjóðirnar, þar á meðal öryggisráðið, þróist í takt við tímann og aðlagist breyttum veruleika,“ sagði Þórdís Kolbrún. „Til þess þarf hugrekki, skapandi hugsun og sterkan pólitískan vilja.“

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta