Hoppa yfir valmynd
1. október 2024 Utanríkisráðuneytið

Um 140 ræðismenn Íslands samankomnir í Reykjavík

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flytur opnunarávarp ráðstefnunnar. - myndSigurjón Ragnar

Tveggja daga Ræðismannaráðstefna Íslands fer nú fram í Reykjavík, þar sem um 140 kjörræðismenn Íslands frá 71 landi eru samankomnir. Ráðstefnan fer fram á fimm ára fresti og er nú haldin í níunda skiptið. Blásið var til fyrstu ráðstefnunnar árið 1971. 

„Ræðismenn Íslands eru algjörlega ómissandi og ómetanlegir fyrir íslensku utanríkisþjónustuna. Þeir sinna í sjálfboðastarfi og af óeigingirni þjónustu við Íslendinga út um allan heim, allan sólarhringinn, allt árið um kring, og þá gildir einu hvers konar mál koma upp,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, sem flutti opnunarávarp á ráðstefnunni.

Net ræðismanna Íslands er ansi víðfemt, en þeir telja 213 í 102 löndum í dag, og gera stjórnvöldum kleift að veita Íslendingum erlendis sambærilega borgaraþjónustu og stærri ríki. Auk þess að gæta hagsmuna íslenskra stjórnvalda, íslenskra fyrirtækja og Íslendinga í umdæmum sínum, gefa þeir út neyðarvegabréf og annast utankjörfundaratkvæðagreiðslur, en eitt helsta hlutverk þeirra er að vera til staðar fyrir Íslendinga erlendis þegar á bjátar, svo sem við slys, veikindi, andlát eða fangelsanir. Þannig eru ræðismenn Íslands burðarás borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar.

Á ráðstefnunni fá kjörræðismennirnir fræðslu um helstu áherslur utanríkisstefnu Íslands og viðskiptatengd málefni, með gestafyrirlesurum úr atvinnulífinu auk kynninga frá Íslandsstofu. Þá heimsækir hópurinn forsera Íslands á Bessastöðum, Hellisheiðarvirkjun og Vinaskóg Skógræktar Íslands við Þingvelli.

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ávarpar ráðstefnuna. - mynd
  • Um 140 ræðismenn Íslands frá 102 löndum sækja ráðstefnuna að þessu sinni. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta