Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2024

Aukinn stuðningur Íslands við heimaræktaðar skólamáltíðir í Síerra Leóne

Dagana 18.-20. nóvember heimsóttu Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Freetown, og Yvonne Forsen, yfirmaður Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) í Síerra Leóne, Sherbro eyju í Bonthe héraði. Tilgangur ferðarinnar var að fylgjast með framkvæmd á verkefni á vegum WFP um heimaræktaðar skólamáltíðir í Bonthe héraði og heimsækja skólana og samfélögin sem njóta góðs af verkefninu.

Í lok árs 2023 var undirritaður þriggja ára samstarfssamning við WFP um heimaræktaðar skólamáltíðir í 136 grunnskólum í Bonthe héraði en verkefnið miðar að því að tryggja skólabörnum næringarríka máltíð og veita smábændum í grennd við skólana aðgang að markaði fyrir vörur sínar. Verkefnið bætir næringu skólabarna, stuðlar að bættum námsárangri, eykur fjölbreytni í ræktun og skapar atvinnuöryggi fyrir smábændur. Fyrr á þessu ári jók Ísland stuðning sinn með því að fjölga skólum sem verkefnið nær til í 184 ásamt því að gera WFP það kleift að kaupa hærra hlutfall matvæla sem ræktuð eru í nágrenni við skólana af smábændum. 40,000 skólabörn njóta nú góðs af verkefninu ásamt því að 88 hópar smábænda í héraðinu hljóta þjálfun og aðföng til þess að rækta sætar kartöflur sem skólarnir kaupa. Nemur framlag Íslands til verkefnisins nú 2,4 milljónum bandaríkjadala yfir þriggja ára tímabil.

Samfélögin á Sherbro eyju sem njóta góðs af stuðningi Íslands eru mörg hver afar afskekkt og þar ríkir alla jafna mikil fátækt, en forstöðumaður sendiráðsins heimsótti fimm samfélög þar sem hún skoðaði grunnskóla sem taka þátt í verkefninu og fylgdist með matargjöf til barna í skólunum. Einnig skoðaði hún bæði ræktun á sætum kartöflum sem er nýjung að rækta á svæðinu og skógaræktarreiti, en einn verkþáttur verkefnisins felst í að skógrækt er komið upp við átta skóla á Sherbro eyju til að nýta megi trén sem eldivið og sporna þannig við skógeyðingu. Forstöðumaðurinn ræddi við börn, kennara, bændur og skólanefndir sem upplýstu hana um framgang verkefnisins og hvaða þýðingu það hefði fyrir samfélögin.

„Það var mikilvægt að heimsækja verkefnastaðina á Sherbro eyju og gefast kostur á að ræða við haghafa og sjá þau miklu áhrif sem heimaræktaðar skólamáltíðir hafa á samfélögin í Bonthe héraði. Ljóst er að verkefnið stuðlar að aukinni viðveru barna í skólunum og aukinni matvælaframleiðslu í nærsamfélögunum sem aftur skilar sér í auknum tekjum til smábænda“, sagði Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Freetown. Lagði Ásdís áherslu á að heimsóknin undirstrikaði skuldbindingu Íslands og WFP til að bæta lífsgæði bæði barna og fullorðna í Bonthe héraði í gegnum heimaræktaðar skólamáltíðir.

  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta