Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2025 Utanríkisráðuneytið

Stuðningur við Úkraínu efst á baugi á utanríkisráðherrafundi á Borgundarhólmi

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Þýskalands, Póllands og vara Evrópumálaráðherra Frakklands. - myndUtanríkisráðuneyti Danmerkur.

Nýjar áskoranir á sviði öryggismála, áframhaldandi stuðningur við Úkraínu og viðbrögð við fjölþáttaógnum voru í brennidepli á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Frakklands, Þýskalands og Póllands sem fram fór á Borgundarhólmi í Danmörku dagana 28. og 29. apríl.

„Mikill samhugur ríkti á fundi okkar í dag um að áframhaldandi og óbilandi stuðningur við Úkraínu þurfi að vera í algjörum forgangi í gjörbreyttu öryggisumhverfi álfunnar þar sem Rússland er helsta ógnin. Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Á fundinum áréttaði hún ríka áherslu Íslands á mikilvægi alþjóðlegrar og svæðisbundinnar samvinnu og lýðræðislegra gilda í Evrópu. Skipan öryggismála í álfunni væri samofin öryggi Úkraínu og því brýnt að gera þeim kleift að tryggja eigin öryggi og varnir. 

„Við ræddum einnig um mikilvægi þess að efla samvinnu ríkjanna til að sporna við síbreytilegum og vaxandi fjölþáttaógnum, hvort sem um er að ræða skemmdarverk, netárásir, upplýsingaóreiðu eða athafnir skuggaflotans svokallaða. Það er nauðsynlegt að sýna árvekni í þessum efnum og eiga í samráði við okkar vina- og bandalagsríki, enda virða þessar aðgerðir engin landamæri,“ segir Þorgerður Katrín.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sinni lýstu ríkin áframhaldandi stuðningi við varnarbaráttu Úkraínu gegn ólöglegu innrásarstríði Rússlands. Binda yrði enda á innrásarstríðið og tryggja varanlegan frið í álfunni, og hvöttu ráðherrarnir til áframhaldandi viðleitni þar að lútandi.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta