Hoppa yfir valmynd
9. maí 2025 Utanríkisráðuneytið

Greinargerð Íslands í máli fyrir Alþjóðadómstólnum

Alþjóðadómstóllinn í Haag. - myndUN Photo/ICJ-CIJ/Frank van Beek

Ísland er meðal þeirra ríkja sem telja skýrt að Ísrael sé brotlegt við skyldur sínar samkvæmt alþjóðalögum um að tryggja aðgengi íbúa á hernámssvæðunum í Palestínu að nauðþurftum og hefur gert grein fyrir þeirri afstöðu sinni fyrir Alþjóðadómstólnum í skriflegri álitsgerð. Dómstóllinn undirbýr nú ráðgefandi álit um skyldur Ísraels sem hernámsríkis til að gera Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðastofnunum kleift að veita nauðsynlega aðstoð á hernámssvæðunum.

Meginþorri þeirra ríkja sem tóku þátt í munnlegum málflutningi eða sendu inn skriflega greinargerð vegna máls sem liggur fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag er sömu skoðunar. Málinu var vísað til Alþjóðadómstólsins með samþykkt allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna á ályktun nr. 79/232 19. desember síðastliðinn og var farið fram á að dómstóllinn sendi frá sér ráðgefandi álit um málefnið. Munnlegum málflutningi í málinu lauk í Haag síðastliðinn föstudag en um sama leyti voru skriflegar greinargerðir, sem sendar höfðu verið inn vegna málsins, einnig gerðar opinberar.

Ísland sendi inn skriflega greinargerð í málinu en þetta er í fyrsta skipti sem Ísland stendur eitt að greinargerð til Alþjóðadómstólsins. Alls sendu 45 ríki og alþjóðastofnanir inn skriflega greinargerð og í síðustu viku fór svo fram munnlegur málflutningur. Í skriflegri greinargerð Íslands eru áréttaðar ófrávíkjanlegar skyldur Ísraels sem hernámsaðila að mannúðarrétti. Þá árétta stjórnvöld sömuleiðis ábyrgð Ísraels á að tryggja að þær stofnanir sem Sameinuðu þjóðirnar hafa falið sérstök hlutverk gagnvart íbúum á hernumdum svæðum Palestínu geti sinnt hlutverki sínu, þar á meðal Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).

Fram kemur í greinargerðinni að áhrif stríðsins á Gaza hafi verið hrikalegar á palestínska borgara, bæði á Gaza og Vesturbakkanum. Íbúar Gaza hafi hrakist frá heimilum sínum, oftar en einu sinni og tugþúsundir manna liggi í valnum, þar á meðal ótalmörg börn. Skortur á mat og hjálpargögnum hafi valdið ólýsanlegri neyð en sá skortur sé tilkominn vegna þess að Ísrael hafi hamlað neyðaraðstoð. Slíkt er með öllu á skjön við ófrávíkjanlegar skyldur hernámsaðila að hleypa að utanaðkomandi mannúðaraðstoð. Þá hafi verið grafið undan UNRWA með hætti sem gerir stofnuninni erfitt fyrir að uppfylla það hlutverk sem alþjóðasamfélagið hefur falið stofnuninni.

Skrifleg greinargerð Íslands í málinu er hér.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta