Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra flutti Alþingi skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál í vikunni og fóru fram umræður um hana í kjölfarið. Í skýrslunni eru atburðir síðasta almanaksárs raktir með ítarlegum hætti.
Bakslag í mannréttindamálum
Utanríkisráðherra var í ræðu sinni tíðrætt um bakslagið sem nú á sér stað í mannréttindum víða um heim. „Því er nú háttað þannig með margt það mikilvægasta í lífinu, að við leiðum ekki hugann að því meðan allt leikur í lyndi. Öryggi ástvina okkar, tími með þeim sem við elskum, góð heilsa, frelsi til að gera það sem hugurinn stendur til og lifa því lífi sem við kjósum. Allt er þetta sjálfsagt þegar við njótum þess en við finnum svo vel fyrir mikilvægi þess þegar því er ógnað, hvað þá þegar það er umsvifalaust tekið af okkur,“ sagði Þorgerður Katrín úr ræðustól Alþingis. „Grunnurinn að sjálfstæði og velferð Íslands liggur í sterku alþjóðakerfi sem byggir á virðingu fyrir mannréttindum, fullveldi og friðhelgi landamæra og stuðning við alþjóðalög.“
Ísland hlaut á síðasta ári kjör til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna til næstu þriggja ára og tók þar sæti um áramótin. Kosning til setu í ráðinu fór fram í allsherjarþinginu í New York í október, en nítján ríki voru í framboði fyrir átján laus sæti ráðsins. Ísland hlaut 174 af 183 greiddum atkvæðum í kosningunni, en auk Íslands voru Spánn og Sviss í framboði um þrjú sæti hóps vestrænna ríkja.
Í ræðu sinni á Alþingi sagði utanríkisráðherra það táknrænt að Ísland taki sæti í mannréttindaráðinu á sama tíma og sótt er að mannréttindum víða um heim.
„Við þurfum ekki að líta langt til að sjá sorglega atlögu að réttindum fólks út frá kyni, kynhneigð eða kynvitund. Ísland mun tala hátt og skýrt á vettvangi mannréttindaráðsins um réttindi hinsegin fólks og annarra jaðarsettra hópa. Við setjum mannréttindi fremst enda eru þau grundvallarforsenda þess að við fáum öll að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi á okkar eigin forsendum,“ sagði Þorgerður Katrín.
Óásættanleg brot á alþjóðalögum
Ráðherra vék orðum sínum að harmleiknum fyrir botni Miðjarðarhafs, þar sem tala látinna hækkar dag frá degi. „Mannúð má síns lítils, lífsnauðsynlegri mannúðaraðstoð er haldið frá almennum borgurum og okkur gjörsamlega ofbýður valdbeitingin, skeytingarleysið um líf fólks og virðingu fyrir helgi einstaklingsins og mannlegri reisn,“ sagði Þorgerður Katrín. „Þau alvarlegu brot á alþjóðalögum sem þar eiga sér stað nú eru með öllu óásættanleg og það er þyngra en tárum taki að alþjóðasamfélagið hafi ekki náð samstöðu um að stöðva átökin.“
Þrjú ár eru nú liðin frá því að Rússland hóf blóðugt landvinningastríð sitt í Úkraínu, en Ísland hefur stutt dyggilega við varnarbaráttu Úkraínu frá upphafi. Ráðherra segir íslensk stjórnvöld hafa tekið þá einu réttu afstöðu í málinu, enda um að ræða eina alvarlegustu öryggisógn Evrópu frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar.
„Þannig hefur Alþingi og nú ríkisstjórn Íslands litið svo á að stuðningur við varnarbaráttu úkraínsku þjóðarinnar sé ekki aðeins stuðningur við eitt ríki sem verst árásum annars ríkis, heldur stuðningur við baráttu fyrir alþjóðalögum, fullveldi og sjálfstæði allra ríkja, þar með talið Íslands,“ sagði Þorgerður Katrín. „Stuðningur við Úkraínu er þannig stuðningur við lýðræði og langtímaöryggi í Evrópu og það er þess vegna sem við styðjum Úkraínu og það er þess vegna sem við höldum áfram að styðja við Úkraínu þar til réttlátur friður næst.“
Breytt staða kalli á endurmat
Ráðherra sagði stöðu mála í álfunni hafa breytt mati ríkja Atlantshafsbandalagsins á alvarleika þeirra ógna sem nú steðja að öryggi og lýðræði í aðildarríkjunum. Breytt staða heimsmála kalli sömuleiðis á endurmat hérlendis, en nú á sér stað stefnumótunarvinna er kemur að öryggis- og varnarmálum Íslands á vettvangi samráðshóps þingmanna allra flokka á Alþingi.
„Umræða um öryggis- og varnarmál má ekki vera til þess að skapa ótta eða óöryggi. Við eigum ekki að vera hrædd. Við eigum hins vegar að vera tilbúin, vera á varðbergi fyrir þeim ógnum sem kunna að mæta okkur og við eigum að treysta varnir okkar í samstarfi við bandalagsþjóðir sem hafa sömu gildi og við um lýðræði, mannréttindi, og frjálst samfélag,“ sagði Þorgerður Katrín. „Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess einmitt að vera þessi verðugi bandamaður sem við viljum og höfum verið og ætlum okkur að halda áfram að vera.“
Bandamenn Íslands í Evrópu
Utanríkisráðherra gerði vaxandi einangrunar- og verndarhyggju í alþjóðaviðskiptum að undanförnu, sömuleiðis að umfjöllunarefni í ræðu sinni á Alþingi og minntist í því sambandi á EES-samninginn, sem fagnaði 30 ára afmæli sínu á síðasta ári, og þau jákvæðu áhrif sem hann hefur haft á íslenskt samfélag og íslenskt viðskiptalíf.
„Það er auðvelt að færa fyrir því rök að samningurinn við ríki Evrópusambandsins um evrópska efnahagssvæðið hafi aldrei verið mikilvægari en nú á tímum ólgu í alþjóðaviðskiptum og alþjóðamálum þar sem hann eykur hagvarnir og efnahagslegt öryggi Íslands,“ sagði Þorgerður Katrín. „Við finnum vel fyrir því á öllum sviðum, hvort sem við lítum til viðskipta, öryggismála eða þróunarmála, að samningurinn stendur föstum fótum og við eigum sterka bandamenn í Evrópusambandinu sem deila með okkur sömu gildum um hugmyndir og hagsmuni.“
Þá sagði utanríkisráðherra að til greina komi að flýta boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið sem fyrirhugaðar eru á næsta ári, ef breyttar aðstæður heimsmála gefi tilefni til þess. „Heimurinn tekur stöðugum breytingum þessa dagana og það er ljóst að aðstæður hafa breyst mikið síðan skrifað var undir stjórnarsáttmálann,“ Sagði Þorgerður Katrín. „En það sem við verðum að alltaf að hafa í huga á hverjum tímapunkti er hvað er best og réttast fyrir land og þjóð, ískalt hagsmunamat fyrir þjóðina okkar og landið.“
Boðaði þátttöku Íslands í nauðsynlegum umbótum
Í ár verða liðin 80 ár frá stofnun Sameinuðu þjóðanna, sem settar voru á stofn til að standa vörð um grundvallarreglur um frið og alþjóðlega samvinnu; lýðræði, frelsi og mannréttindi, í skugga síðari heimstyrjaldarinnar. Þorgerður Katrín gerði stöðu Sameinuðu þjóðanna að umtalsefni í ræðu sinni.
„Fyrir Ísland sem á allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt og að það sé hlúð að grunngildum í alþjóðlegu samstarfi er nauðsynlegt að taka virkan þátt í þeim umbótum sem þurfa að eiga sér stað eigi kerfið að virka,“ sagði Þorgerður Katrín. „Við í ríkisstjórninni ætlum að halda rödd Íslands áfram hátt á lofti fyrir mannréttindum og mannhelgi og við munum gera það sem við getum til að standa við okkar skuldbindingar þegar kemur að þróunarmálum og mannréttindum.“
Ísrael verði dregið til ábyrgðar
Loks vék ráðherra sér aftur að bakslaginu sem nú á sér í mannréttindum, m.a. í jafnréttisbaráttunni, og setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem málefni barna, kynjajafnrétti og réttindi hinsegin fólks verði sett í forgrunn, sem og tengsl umhverfismála og mannréttinda. Þorgerður Katrín sagði þó ekkert mannréttindamál eins aðkallandi nú um stundir en að ná fram tafarlausu vopnahléi á Gaza.
„Ástandið á Gaza er með þeim hætti að ekki verður við unað. Þar blasa við brot á alþjóðalögum og hryllilegar aðstæður sem ég get ekki séð að séu annað en tilraun til þjóðernishreinsana,“ sagði Þorgerður Katrín.
„Við höfum í nýrri ríkisstjórn markað nýjar áherslur sem byggja á því m.a. að kalla Ísrael til ábyrgðar fyrir þau brot á alþjóðalögum sem framin eru á Gaza, að Ísrael verði dregið til ábyrgðar þegar það kemur í veg fyrir það að neyðaraðstoð og nauðþurftir komi inn á svæðið. Við þær aðstæður sem nú ríkja á Gaza, þar sem almenningur býr við meiri neyð en áður hefur þekkst og tugþúsundir hafa týnt lífi skiptir einnig miklu máli, […], að láta fé af hendi rakna til neyðaraðstoðar.
Þar mun Ísland ekki skorast undan.“
Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál kemur í fjórða sinn út sem samantekt í hefðbundnu þingskjalsformi samhliða skýrslu um utanríkismál sem miðast við almanaksárið. Skýrslu utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum.