EES-ríkin efla samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála
EFTA-ríkin innan EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, og Evrópusambandið (ESB) ætla að efla samstarf sitt á sviði utanríkis- og öryggismála. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra undirritaði sameiginlega yfirlýsingu þess efnis í tengslum við fund EES-ráðsins sem fram fór í Brussel í dag. Þar er kveðið á um aukið pólitískt samráð, að ríkin samræmi afstöðu til alþjóðamála, efli samstarf sitt á sviði öryggis- og varnarmála og vinni saman að því að standa vörð um mannréttindi, þ.m.t. jafnrétti.
„Við núverandi aðstæður á alþjóðavettvangi er mikilvægt að styrkja samstarfið við okkar helstu vina- og samstarfsþjóðir. Samstarf við Evrópusambandið um alþjóðamál hefur frá upphafi verið hluti af EES-samstarfinu og mikilvægt að efla það með þessum hætti“, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra.
Samkeppnisfærni, viðskipti og efnahagslegt öryggi voru í brennidepli á fundi EES-ráðsins í Brussel. Utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna þriggja áttu einnig pólitískt samráð við Kaju Kallas, utanríkismálastjóra ESB þar sem m.a. var rætt um stöðuna í Úkraínu, þá alvarlegu og hörmulegu stöðu sem við blasir á Gaza og málefni Norðurslóða.
Í ávarpi sínu á EES-ráðsfundinum lagði Þorgerður Katrín áherslu á aukið mikilvægi efnahagslegs öryggis innan EES-samstarfsins og hlutverki þess þegar kemur að eflingu öryggis og viðnámsþróttar innan EES-ríkjanna. Áréttaði hún að viðskiptahindranir geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslegt öryggi.
Utanríkisráðherra fundar í fyrramálið með Maroš Šefčovič, framkvæmdastjóra utanríkisviðskipta og efnahagslegs öryggis í framkvæmdastjórn ESB sem einnig fer með málefni EES-samstarfsins, sem einnig tók þátt í fundi EES-ráðsins í dag.
EES-ráðið er pólitískur vettvangur EES-samstarfsins og fer fram tvisvar á ári. Þar hittast utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna innan EES auk fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB sem og fulltrúa þess ríkis sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB hverju sinni, en Pólland fer nú með formennsku í ráðinu.