Samráðsfundur bandalagsríkja á norðurslóðum
Samráðsfundur bandalagsríkja á norðurslóðum um viðbúnað og eftirlit á svæðinu var haldinn á Íslandi 21.-22. maí. Fundinn sóttu háttsettir embættismenn varnarmálaráðuneyta Bandaríkjanna, Kanada og Norðurlandanna fimm, þar á meðal fulltrúar Færeyja og Grænlands.
Til umræðu var varnarsamstarf ríkjanna sjö sem hefur aukist undanfarin ár í ljósi hernaðaruppbyggingar Rússlands. Þá hefur aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu styrkt samstarf ríkjanna á norðurslóðum og er áhersla lögð á að samstarfið miði að því að efla fælingarmátt og varnir bandalagsins. Ísland hélt utan um undirbúning fundarins og fundarstjórn. Þátttakendum var einnig boðin kynning á framkvæmd varnartengdra verkefna á öryggissvæðinu í Keflavík.