Hinseginleikanum fagnað í París
Gleðin var við völd síðastliðna helgi í París þar sem fastanefndir fjórtán ríkja í bandalagi um jöfn réttindi (e. Equal Rights Coalition) stóðu fyrir hinsegin viðburðinum „Pride in Motion: From Stories to Action“ í höfuðstöðvum UNESCO í París. Sýndar voru fimm hinsegin stuttmyndir frá Íslandi, Úrúgvæ, Mexíkó, Litáen og Lúxemborg. Íslenska stuttmyndin, Hann, undir leikstjórn Rúnars Þórs Sigurbjörnssonar hlaut góðar undirtektir. Myndin var frumsýnd árið 2018 í samstarfi við Samtökin 78 og fjallar um Andra, ungan dreng, sem er að átta sig á sjálfum sér og sínum tilfinningum.
Þetta er í annað sinn sem aðildarríki taka frumkvæði að skipulagningu hinsegin viðburðar í höfuðstöðvum UNESCO og voru skipuleggjendur að þessu sinni Austurríki, Belgía, Brasilía, Holland, Ísland, Írland, Kanada, Litáen, Lúxemborg, Mexíkó, Noregur, Síle, Spánn og Úrúgvæ.
Auðbjörg Halldórsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO, var á meðal fulltrúa ríkja sem fluttu sameiginlegt myndbandsávarp á viðburðinum og jafnréttisstýra UNESCO, Begona Lasagabaster, flutti þar opnunarinnlegg. Síðari hluti viðburðarins var síðan í formi pallborðs þar sem fulltrúar UNESCO ræddu þau verkefni sem UNESCO vinnur að um málefni hinsegin fólks. Loks var haldin litrík gleðimóttaka í framhaldinu sem jafnframt var undirbúningur fyrir árlegu gleðigönguna í París sem fór fram daginn eftir. Starfsfólk sendiráða og fastanefnda fjölmenntu á gönguna í samstarfi við samtökin Ambassades pour l'égalité (sendiráð fyrir jafnrétti) og ALGO, sem eru samtök hinsegin starfsfólk utanríkisráðuneytis Frakklands. Starfsfólks sendiráðs Íslands í París lét sig að sjálfsögðu sig ekki vanta í gönguna.