Vatn í verkum íslenskra myndlistarkvenna vekur verðskuldaða athygli í París
Mikill gestagangur er í embættisbústaðnum í París og það er gaman að segja frá því að verkin hafa vakið verðskuldaða athygli og skapað áhugaverðar umræður meðal gesta, svo sem þýðingu vatnsins fyrir Ísland, vatnið sem er í stöðugri hringrás um eyjuna, árnar, fossana, jöklana og hverina sem móta landslagið. Þá hafa verkin hugvekjandi áhrif um þýðingu vatns og afleiðingar loftslagsbreytinga á vatnafar, jöklana, hafið, lífríkið og náttúruna.
Um listakonurnar
Kristín Jónsdóttir fæddist árið 1933 á Munkaþverá í Eyjafirði. Hún stundaði myndlistarnám í Reykjavík, Kaupmannahöfn og París og framhaldsnám á Ítalíu. Verk Kristínar kunna að virðast kyrrlát við fyrstu sýn en undir niðri er þungur niður – nútíð og fortíð kallast á og tíminn, náttúran og menningin eru leiðarstef.
Guðrún Kristjánsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1950 og stundaði þar myndlistarnám og síðar í Aix-en-Provence í Frakklandi. Hún hefur sýnt verk sín víða um heim. Myndefni Guðrúnar er innblásið af hinni stórbrotnu íslensku náttúru og veðrinu sem hún reynir að koma yfir í abstract form.
Guðbjörg Lind Jónsdóttir er fædd á Ísafirði 1961 og útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985. Viðfangsefni verka hennar tengjast vatni, fyrst fossum og síðar sjávarfletinum þar sem eyjar og bátar fljóta á yfirborðinu eða fjallshlíðar og eyrar teygja sig út á hafflötinn. Í verkum hennar er fólgið ferðalag á vit veraldar þar sem skynja má hið upphafna í einfaldleikanum sjálfum.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um sýninguna hjá sendiráðinu.