Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2025 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra heimsótti USS Newport News í Grundartangahöfn

Eric McCay, skipstjóri USS Newport News, Stuart B. Munsch, aðmíráll í bandaríska sjóhernum, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, og Erin Sawyer, starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, á Grundartanga í dag. - mynd

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra heimsótti bandaríska kafbátinn USS Newport News, í höfninni á Grundartanga í dag. Um er að ræða reglulega þjónustuheimsókn kjarnorkuknúna bandarískra kafbáta á Íslandi, en þá fyrstu sem fram fer í höfn. Áhöfn USS Newport News telur um 140 einstaklinga, en báturinn er Los Angeles-gerðar og ber ekki kjarnavopn.

„Þetta er mikilvægur áfangi í löngu og farsælu varnarsamstarfi við Bandaríkin sem hefur styrkst mjög á síðustu árum. Við höfum markvisst verið að styrkja samstarfið sem byggir á varnarsamningnum og sameiginlegum hagsmunum á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Við tökum varnarmálin alvarlega og viljum tryggja okkar eigið öryggi og öryggi okkar bandamanna, það gerum við meðal annars með því að styðja þeirra aðgerðir á þessu mikilvæga hafsvæði.“ segir Þorgerður Katrín. 

Stuart B. Munsch, aðmíráll og yfirmaður Evrópu- og Afríkuflota Bandaríkjanna, og Erin Sawyer, starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, tóku á móti utanríkisráðherra við komuna á Grundartanga. Þar fékk ráðherra skoðunarferð um kafbátinn, kynnti sér verkefni áhafnarinnar og átti fundi með Munsch um þróun öryggismála á  Norður-Atlantshafi og norðurslóðum.  Munsch aðmíráll átti einnig fund með skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu, Jónasi G. Allanssyni, heimsótti öryggissvæðið í Keflavík og hitti bandaríska liðsaflann sem sinnir aðgerðum þaðan með kafbátaleitarflugvélum. 

Þetta er í áttunda sinn sem kjarnorkuknúinn kafbátur bandaríska sjóhersins kemur í þjónustuheimsókn í íslenska landhelgi eða frá því að þáverandi utanríkisráðherra tilkynnti 18. apríl 2023, að slíkum kafbátum yrði heimilað að hafa stutta viðkomu á Íslandi til að taka kost og skipta út hluta áhafnar.

Heimsóknin er á ábyrgð utanríkisráðuneytisins en Landhelgisgæsla Íslands leiðir framkvæmd hennar í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Geislavarnir ríkisins og sóttvarnarlækni í samræmi við settar verklagsreglur. Vel hefur tekist til með undirbúning og framkvæmd heimsóknanna þökk sé þéttu samstarfi og samráði hlutaðeigandi stofnana innanlands og góðu samstarfi við bandaríska sjóherinn.

Nánar um þjónustuheimsóknirnar hér.

  • USS Newport News á siglingu inn Hvalfjörð. - mynd
  • USS Newport News og dráttarbátar Faxaflóahafna, Magni og Haki. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta