Fundur framkvæmdastjórnar Matvælaáætlunar S.Þ. í Róm
Cindy McCain framkvæmdastýra stofnunarinnar hélt opnunarávarp og fjallaði um þær áskoranir og hættur sem starfsfólk stofnunarinnar stæði frammi fyrir. Það hefur aldrei verið eins hættulegt að vinna við mannúðaraðstoð og það hafa aðilar sem starfa í framlínunni í Úkraínu, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Gaza, Súdan, Afganistan og Mjanmar fundið fyrir.
Það er erfitt og stundum ómögulegt að ná til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda en þrátt fyrir það gefst starfsfólk stofnunarinnar ekki upp. Það heldur áfram að reyna að þjónusta þá sem aðstoð þurfa og byggja upp virðuleika og von hjá fólki sem býr við hungur, átök og hræðslu.
Mannúðarmálin öll eru undirfjármögnuð og Matvælaáætlun S.Þ. situr uppi með stórt gat í fjármögnuninni. Horfur eru frekar dökkar en stofnunin þarf nú að sýna fram á raunsæa og metnaðarfulla áætlun með víðfeðmri sérfræðiþekkingu sem finnst innan stofnunarinnar í hinni miklu baráttu við fæðuóöryggi í heiminum.
Tom Fletcher aðstoðarframkvæmdastjóri mannúðarmála og stjórnandi neyðaraðstoðar S.Þ. ávarpaði fundinn en í máli hans kom fram að semja þyrfti um frið við plánetuna, verja okkar gildi og mannúðarlög, færa aðgerðir nær aðstæðum (e. localization), endurmóta kerfið í heild sinni og gera meira með minna.
Fyrir hönd Norðurlandanna flutti Noregur ávarp sem finna má hér í viðhengi.
Nordic Statement - EB June 2025
Degi kvenkyns diplómata var síðan haldið í heiðri með hópmyndatöku.
Í lok fundar var starfsfólk sem lokið hefur sínum ferli hjá stofnuninni kvatt af framkvæmdastjórn og þökkuð vel unnin störf í þágu þeirra sem minna mega sín í heiminum.