Stuðningur við Úkraínu í brennidepli á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna og Kanada
Vaxandi áskoranir á sviði öryggismála, áframhaldandi stuðningur við Úkraínu og málefni Mið-Austurlanda voru í brennidepli á árlegum sumarfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem lauk í Nuuksio, Finnlandi, í dag. Utanríkisráðherra Kanada var sérstakur gestur fundarins.
„Mikill samhugur var á fundinum varðandi mikilvægi áframhaldandi stuðnings við Úkraínu og mun Ísland ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Það þarf að tryggja réttlátan og varanlegan frið í Úkraínu sem byggist á traustum öryggistryggingum. Náið samstarf Evrópuríkjanna, Bandaríkjanna og Kanada er lykillinn að því að að þetta verði, því öryggi Úkraínu er órjúfanlegur hluti af öryggi alls Norður-Atlantshafssvæðisins,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Í yfirlýsingu ráðherrafundarins fagna Norðurlöndin og Kanada þeim skrefum sem nú eru tekin í samstarfi við Bandaríkin til að stöðva blóðsúthellingarnar í Úkraínu og stríðsrekstur Rússlands. Ríkin muni áfram standa þétt við bakið á Úkraínu með samhæfðum varnartengdum stuðningi, endurreisnarstarfi og aðstoð við úkraínskt samfélag. Þess er krafist að Rússland skili þeim þúsundum barna sem hafa verið numin ólöglega á brott og flutt til Rússlands frá upphafi allsherjarinnrásarinnar í febrúar 2022. Þá er áréttað að ríkin muni viðhalda þvingunaraðgerðum, innleiða nýjar aðgerðir, og tryggja skilvirka framkvæmd þeirra.
Í umræðum um málefni Mið-Austurlanda áréttaði utanríkisráðherra að tveggja ríkja lausnin sé eina raunhæfa leiðin að friði milli Ísraela og Palestínumanna. Aðkallandi sé að ríki heims viðurkenni og raungeri sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og sjálfstætt ríki Palestínu taki sér stöðu við hlið Ísraelsríkis. Núverandi ástand á Gaza geti ekki varað lengur, vopnahlé verði að komast á og neyðaraðstoð að berast óbreyttum borgurum, auk þess sem sleppa þarf öllum gíslum. Þá væru yfirlýsingar ísraelskra ráðamanna um frekari landtöku á Vesturbakkanum fullkomlega óviðunandi.
Einnig var á fundi ráðherranna fjallað um málefni norðurslóða og mikilvægi samstarfs ríkjanna í þeim efnum. Utanríkisráðherra átti jafnframt tvíhliða fund í Nuuksio með Espen Barth Eide utanríkisráðherra Noregs þar sem m.a. var rætt um alþjóðaviðskipti og stöðuna í Mið-Austurlöndum.