Sameiginleg yfirlýsing um landtökubyggðir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er meðal tuttugu og fimm utanríkisráðherra, auk utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, sem fordæmir í sameiginlegri yfirlýsingu ákvörðun ísraelskra yfirvalda um að samþykkja nýjar landtökubyggðir á svokölluðu E1-svæði á Vesturbakkanum, austan við Jerúsalem-borg. Fara ráðherrarnir eindregið fram á að þessi ákvörðun verði afturkölluð, hún gangi gegn alþjóðalögum. Er í yfirlýsingunni ítrekað að ísraelskum stjórnvöldum beri á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2334 að láta af allri landtöku.
Ísland á einnig aðild að yfirlýsingu sem gefin er út í dag af hálfu Media Freedom Coalition, samtaka ríkja um frelsi fjölmiðla, en þar er lögð áhersla á mikilvægi þess að alþjóðlegir fjölmiðlar hafi aðgengi að Gaza og að öryggi þeirra sem sinna fjölmiðlun á Gaza sé tryggt. Er allt ofbeldi sem beinist gegn fjölmiðlafólki fordæmt í yfirlýsingunni. Þá er ákall um vopnahlé ítrekað, lausn allra gísla á Gaza og óheft flæði neyðaraðstoðar inn á Gaza, auk þess sem áréttað er að tveggja ríkja lausnin sé eina leiðin til að tryggja varanlegan frið og öryggi í Mið-Austurlöndum.
Yfirlýsingu utanríkisráðherranna og utanríkismálastjóra Evrópusambandsins má lesa hér.
Yfirlýsingu Media Freedom Coalition í heild sinni má lesa hér.