Yfirhershöfðingi þýska hersins heimsækir Ísland
Carsten Breuer, yfirhershöfðingi þýska heraflans, sótti Ísland heim í vikunni og átti í dag fundi með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Jónasi G. Allanssyni, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Markmið heimsóknarinnar var að gefa Breuer tækifæri til að kynna sér aðstæður hérlendis sem og framlag Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins, ekki síst á norðurslóðum. Þá var heimsóknin sömuleiðis þýðingarmikill liður í að efla tengsl og tvíhliða samstarf Íslands og Þýskalands á sviði varnarmála.
„Það var afar gagnlegt og mikilvægt að ná góðu samtali við Breuer hershöfðingja, en Þýskaland er auðvitað eitt af lykilbandalagsríkjum Atlantshafsbandalagsins. Heimsókn hans hingað sýnir glögglega vaxandi áhuga þeirra á Norður-Atlantshafi og á að efla varnarsamstarfið við Ísland,“ segir Þorgerður Katrín. „Enda gegnir Ísland gríðarlega mikilvægu hlutverki er lýtur að öryggis- og varnarmálum í þessum heimshluta. Fyrir okkur er það brýnt að vera virkir þátttakendur í verkefnum er snerta okkar nærsvæði, bæði á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Þannig sinnum við hagsmunagæslu okkar af festu og ábyrgð.“
Þýskaland vinnur nú að því að stórefla herafla sinn í samræmi við ákvörðun leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í júní um aukin framlög bandalagsríkja til varnarmála. Framlag Þjóðverja kemur til með að skipta sköpum fyrir öryggi og varnir Evrópu, en Þýskaland er fjölmennasta ríki Evrópu og þriðja stærsta hagkerfi heims. Þýskaland er einnig leiðandi í stuðningi við Úkraínu og fer ásamt Bretlandi fyrir stuðningsríkjahópi Úkraínu.
Meðan á dvöl Breuer hershöfðingja stóð kynnti hann sér m.a. aðstæður á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og Helguvíkurhöfn.