Landgræðsluskóli GRÓ útskrifar 19 sérfræðinga
Átjándi nemendahópur Landgræðsluskóla GRÓ útskrifaðist á þriðjudaginn. Nemendahópurinn samanstóð af 19 sérfræðingum á sviði sjálfbærrar landnýtingar og endurheimtar vistkerfa, frá níu samstarfslöndum skólans í Afríku og Asíu. Þetta var í fyrsta sinn sem nemendur frá Benín og S-Afríku útskrifast úr skólanum, en aðrir nemendur voru frá Gana, Kenía, Úsbekistan, Lesótó, Malaví, Mongólíu og Úganda.
Tveir nemendur fluttu ávarp fyrir hönd útskriftarhópsins. „Ég vissi að námið yrði fagleg áskorun, en áttaði mig ekki á því hversu mikið það myndi auðga líf mitt,“ sagði Emma Akinyi Odera frá Kenía. „Að búa og læra við hlið svo margra ástríðufullra og ólíkra einstaklinga skapaði samfélag sem ég mun búa að langt umfram dvöl mína á Íslandi,“ sagði hún. Otabek Nigmatov frá Úsbekistan sagði að nemendur hafi ekki eingöngu útskriftarskírteinin með í farteskinu við heimför, heldur muni nýir vinir, minningar sem og Ísland alltaf eiga sinn stað í hjarta þeirra. „Þessir sex mánuðir hafa snúist um lærdóm, vöxt og að skilja að þó við komum frá ólíkum löndum deilum við sameiginlegu markmiði: að endurheimta landsvæði og samfélög,“ sagði hann.
Landgræðsluskólinn er einn fjögurra skóla sem starfræktir eru á vegum GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, en hinir starfa á sviði jafnréttis, jarðhita og sjávarútvegs. GRÓ starfar undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Alls hafa nú 240 nemendur útskrifast úr sex mánaða námi við Landgræðsluskóla GRÓ frá stofnun hans árið 2007. Samtals hafa því 1.835 sérfræðingar útskrifast úr fimm til sex mánaða námi frá GRÓ-skólunum fjórum.
Landgræðsluskóli GRÓ er hýstur í Landbúnaðarháskóla Íslands og fór útskriftarathöfnin fram í húsnæði skólans að Keldnaholti. Ræður við útskriftina fluttu Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla GRÓ, og Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, sem sleit athöfninni.