Ráðherra tók þátt í óformlegum fundi utanríkisráðherra ESB um Úkraínu
Ólöglegt og blóðugt innrásarstríð Rússlands í Úkraínu, frekari þvingunaraðgerðir og mögulegar aðgerðir til að stemma stigu við skuggaflota Rússlands voru í brennidepli á óformlegum fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna sem fram fór í Kaupmannahöfn í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra var sérstakur gestur á þessum hluta fundarins, ásamt utanríkisráðherra Noregs og ráðherra Evrópumála Bretlands.
„Það var mikil samstaða meðal ríkjanna hér um að við ætlum áfram að standa þétt við bakið á úkraínsku þjóðinni í varnarbaráttu þeirra fyrir frelsi og lýðræði. Það er óþolandi að Rússar skuli standa í vegi fyrir öllum tilraunum til friðarumleitana og ákallið um réttlátan og varanlegan frið til handa úkraínsku þjóðinni stendur óhaggað ,“ segir Þorgerður Katrín. „Þessu gegndarlausa ofbeldi Rússa verður að linna og það strax.“
Auk fundarins var utanríkisráðherra boðið að taka þátt í óformlegum kvöldverði utanríkisráðherra aðildarríkjanna, sem fram fór í gærkvöldi. „Þar nýtti ég tækifærið til að koma mikilvægum hagsmunum Íslands gagnvart Evrópusambandinu á framfæri, þar á meðal hagsmunum okkar er snúa að verndarráðstöfunum,“ segir Þorgerður Katrín.
Aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) skiptast á að fara með formennsku í ráði ESB (e. Council) á sex mánaða fresti. Formennskuríkið, sem að þessu sinni er Danmörk, stýrir fundum í ráði ESB, sem og undirstofnunum þess. Auk formlegra funda ráðsins skipuleggur formennskuríkið hverju sinni einnig óformlega fundi ráðsins eins og þennan. Utanríkisráðherra formennskuríkisins er gestgjafi fundarins. Utanríkismálastjóri ESB, Kaja Kallas, stýrir hins vegar fundinum líkt og öðrum fundum utanríkisráðherra ESB-ríkjanna.
Utanríkisráðherra átti auk þess tvíhliðafund með José Manuel Albares Bueno, utanríkisráðherra Spánar, þar sem málefni Gaza og tvíhliða samskipti ríkjanna voru m.a. til umræðu sem og fyrirhuguð opnun sendiráðs Íslands í Madríd.