Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. maí 2000 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samningur um strandstöðvaþjónustu

Þann 17. apríl sl. féllst samgönguráðherra á að framlengja samning Póst- og fjarskiptastofnunar f.h. ríkisins við Landssíma Íslands hf. um þjónustu við strandarstöðvar. Samningurinn gildir til 1. janúar 2003 hið lengsta.I.
Áætlaður kostnaður ríkisins vegna þjónustunnar er:


Árið 2000: kr. 172.660.000
Árið 2001: kr. 147.492.000
Árið 2002: kr. 118.648.000

Mikilsverðir öryggishagsmunir eru tengdir strandarstöðvum en rekstur þeirra hefur verið í höndum Póst- og símamálastofnunar, Pósts og síma hf. og nú síðast Landssíma Íslands hf. Verulegt tap hefur alla tíð verið af starfseminni sem hefur gert það að verkum að Landssíminn hefur leitað leiða til hagræðingar. Vegna væntanlegrar sölu fyrirtækisins og aukinnar áherslu á að fjarskiptaþjónusta lúti sjónarmiðum samkeppnisrekstrar er óhjákvæmilegt að aflétta þeirri kvöð af Landssímanum að hann starfræki strandarstöðvar með umtalsverðu tapi.

II.
Í strandarstöðvum fer fram mikilvæg starfsemi í þágu öryggis sæfarenda, m.a. rekstur sjálfvirkrar tilkynningarskyldu, rekstur og hlustun á neyðar- og öryggisþjónustu, almenn fjarskiptaþjónusta við skip og útsending á öryggistilkynningum (Navtex) til íslenskra sjófarenda. Heimilt er að skilgreina þessa þjónustu sem sértæka þjónustu í fjarskiptalögum en slíkur kostnaður skal að jafnaði greiddur úr ríkissjóði. Póst- og fjarskiptastofnun gerir samning við fjarskiptafyrirtæki í kjölfar útboðs eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

III.
Í ljósi þessa telur samgönguráðherra tímabært að líta á fjarskiptaþjónustu við skip í heild sinni og hefja undirbúning að framtíð og fyrirkomulagi strandarstöðvaþjónustu á Íslandi með það fyrir augum að bjóða þjónustuna út eins og mælt er fyrir um í fjarskiptalögum. Áður en af því verður er nauðsynlegt að greina fyrirsjáanlega þörf fyrir hina ýmsu þætti fjarskipta við skip. Ráðherra telur eðlilegt að eftirtaldir aðilar komi að þeirri vinnu: Samgönguráðuneyti, Póst- og fjarskiptastofnun, fjármálaráðuneyti, dóms-og kirkjumálaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Undirbúningsvinna tekur væntanlega 1-2 ár og myndi framangreindur samningur við Landssímann gilda á því tímabili.
Við útboð þjónustunnar mun samgönguráðherra leggja á það áherslu að hún flytji frá Reykjavík út á land.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira