Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. júní 2000 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Nýjar reglur um slysavarnir í höfnum

Samgönguráðherra hefur ávallt lagt mikla áherslu á öryggismál sjómanna. Nýverið tóku gildi nýjar reglur um slysavarnir í höfnum, og fylgir hér á á eftir grein um málið sem birtist í síðasta tölublaði fréttabréfs
Siglingastofnunar, Til Sjávar.

Samgönguráðherra hefur ávallt lagt mikla áherslu á öryggismál sjómanna.
Nýverið tóku gildi nýjar reglur um slysavarnir í höfnum, og fylgir hér
Á ári hverju verða mörg óhöpp og slys í og við hafnir. Slysin má rekja til
ýmissa þátta, svo sem óvarkárni, ónógs viðhalds og merkinga. Nýlega tók gildi
reglugerð um slysavarnir í höfnum (nr. 247/2000). Setning þessarar
reglugerðar er tímabær en hingað til hafa engar formlegar reglur verið í
gildi um slysavarnir í höfnum. Þó svo að reglur einar og sér komi ekki í veg
fyrir slys þá má ætla að þær muni hafa áhrif þegar til lengri tíma er litið
og bæta öryggi í höfnum. Í þessari grein verða helstu atriði reglnanna
reifuð.

Nær einnig til eldri mannvirkja.
Í 1. gr. segir: Við hönnun og endurbætur hafnarmannvirkja skal gert ráð fyrir
uppsetningu öryggisbúnaðar og að mannvirki séu almennt þannig hönnuð, að þeim
sem um hafnir fara sé sem minnst hætta búin og skal við ákvörðunina gætt að
lágmarki ákvæða reglna þessara. Eldri mannvirki skulu sérstaklega yfirfarin
og þau færð til þess vegar sem reglur þessar segja til um á gildistíma
hafnaáætlunar áranna 2001- 2004.
Í 2. gr. segir m.a.: Allar bryggjur skulu búnar vel færum stigum. Þeir skulu
ná 1,5 m niður fyrir stórstraums fjöruborð, vera með auðveldri uppgöngu yfir
bryggjukant og málaðir með rauðgulri endurskinsmálningu. Ljós skal vera efst
í hverjum stiga, nema á flotbryggjum. Lýsingu á bryggjum skal hagað þannig að
stigarnir sjáist greinilega. Á flotbryggjum skulu stigarnir ná 1,0 m niður
fyrir sjávarborð.

Merking björgunartækja.
Í 3. gr. er fjallað um björgunartæki. Þar segir að á hverju aðskildu
hafnarsvæði eigi að vera aðgengilegir og vel merktir a.m.k. tveir
bjarghringir, tveir krókstjakar a.m.k. 6 m langir og tvö björgunarnet.
Fjallað er ítarlega um lýsingu á hafnarsvæðum í 4. gr. reglnanna. Tryggt skal
að lýsinu sé þannig háttað að vinnu- og umferðaröryggi sé í hámarki og hún
trufli ekki sjófarendur.
Í 5. gr. segir m.a.: Á hverju hafnarsvæði skal vera a.m.k. einn bjölluskápur
tengdur lögreglu/slökkviliði/hafnarskrifstofu eða öðrum þeim aðila, sem
kveðja má til ef slys ber að höndum.
Í 6. gr. er fjallað um bryggjukanta: Á hafnarsvæðum þar sem akfært er að sjó
og fyrir verða bryggjur þar sem dýpi verður meira en 1,5 m á flóði eða
brattir kantar skulu gerðir minnst 20 cm háir kantbitar svo öflugir að þeir
láti ekki undan ákeyrslu.

Samræmdar merkingar.
Mikil áhersla er lögð á merkingar og að samræmi sé í þeim efnum, t.d. eiga
bryggjukantar að vera málaðir í ljósgulum lit (sítrónugult), stigar í
rauðgulum lit (appelsínugult). Hindranir skulu málaðar með svörtum og gulum
röndum. Þetta kemur fram í 7. gr. en þar segir ennfremur að málningin skuli
vera endurskinsmálning. Fjallað er um löndunar- og hafnarkrana í 8. gr. Þeir
eiga að vera skráðir skv. lögum og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins gilda um
notkun þeirra.
Í 9. gr. segir: Umferð um hafnarsvæði skal skipulögð þannig að sem minnst
slysahætta stafi af henni fyrir þá sem þar vinna. Ökuleiðir skulu vera
nægjanlega breiðar og greiðfærar og gönguleiðir yfir þær greinilega merktar.
Við op og gryfjur sem eru dýpri en 50 cm skal vera 100 cm hátt handrið með
hnélista í 50 cm hæð. Vörur skal ekki geyma á hafnarbakka nær brún
sjávarmegin en 2 metra.

Eftirlit Siglingastofnunar.
Rík áhersla er lögð á í reglunum (10. gr.) að hafnarstjórn sjái til þess að
starfsmenn hennar fái lágmarksþjálfun í notkun þeirra björgunar- og
öryggistækja sem eru á hafnarsvæðinu. Ennfremur á hafnarstjórn að
skipuleggja innra eftirlit með öllum þáttum þessara reglna og samráð skal
haft við Siglingastofnun í þeim efnum Einu sinni á ári eða oftar eiga
starfsmenn Siglingastofnunar að sannreyna virkni innra eftirlits hverrar
hafnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira