Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. október 2000 Innviðaráðuneytið

Útboð á rekstri Herjólfs

Samgönguráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun málalyktir í útboði á rekstri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.


Rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs var boðinn út í júlí sl. Áður en til útboðs kom var bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekað gefið tækifæri til þess að gefa umsögn um útboðsgögnin. Tekið var tillit til ábendinga hennar að flestu leyti.

Tvö tilboð bárust í rekstur Herjólfs. Frá núverandi rekstraraðila þ.e. Herjólfi hf. að upphæð 325 m.kr. og frá Samskipum hf. að upphæð 192 m.kr. Mismunur þessara tilboða var verulegur eða 133 m.kr., þ.e. 44 m.kr. á ári í lægri greiðslu fyrir ríkissjóð. Kostnaðarmat Vegagerðarinnar hljóðaði upp á 222 m.kr og var það 30 millj. kr. (10 m.kr. á ári) hærra en tilboð Samskipa hf.

Við yfirferð tilboðsgagna varð Vegagerðinni fljótlega ljóst að tilboð lægstbjóðanda fullnægði öllum þeim skilyrðum sem sett höfðu verið í útboðinu.

Miklar og harkalegar athugasemdir bárust frá stjórn Herjólfs hf. á þessum tíma um útboð Vegagerðarinnar. Beindust athugasemdirnar fyrst og fremst að kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Til að bregðast við þessu var haldinn fundur í Vestamannaeyjum þann 28. september að frumkvæði Vegagerðarinnar. Á þann fund mættu fulltrúar frá bæjarstjórn Vestmannaeyja og stjórn Herjólfs hf., vegamálastjóri, framkvæmdastjóri og forstöðumaður frá Vegagerðinni og fulltrúi frá samgönguráðuneyti. Í framhaldi af þeim fundi var haldinn annar fundur 2. október í Vegagerðinni með fulltrúum Vestmannaeyinga. Ekkert nýtt kom fram á þessum fundum er orðið gæti til þess að Vegagerðin kæmist að annarri niðurstöðu en að taka bæri tilboði Samskipa hf.

Vegna áðurnefndra athugasemda frá stjórn Herjólfs hf. óskaði samgönguráðherra samt eftir því við vegamálastjóra að stjórn Herjólfs hf. gæfist tækifæri til að senda kæru til kærunefndar útboðsmála áður en gengið yrði til undirritunar samninga við lægstbjóðanda. Þess yrði þó gætt að virða hagsmuni ríkissjóðs því frestur til að taka tilboði rann út þann 9. október. Í framhaldi af þessu gerði vegamálastjóri samkomulag við Samskip hf. dags. 6. október um að frágangi samnings yrði frestað til 27. október svo álit kærunefndar gæti legið fyrir. Á þessum tíma lá það fyrir af hálfu ráðherra að málið yrði tekið til skoðunar að nýju ef verulegir annmarkar fyndust á útboðinu.

Kæra Herjólfs hf. var dagsett 4. október og barst kærunefnd þann 9. október. Með bréfi dags. sama dag gaf kærunefndin Vegagerðinni færi á að gera athugasemdir við kæruna. Vegagerðin sendi inn athugasemdir þann 16. október. Kæranda, þ.e. stjórn Herjólfs hf., var með bréfi 16. október gefinn kostur á að svara athugasemdum Vegagerðarinnar í síðasta lagi 20. október. Með bréfi dags. 24. sama mánaðar óskaði Herjólfur hf. eftir frekari fresti til að gera athugasemdir við greinargerð Vegagerðarinnar, en að öðrum kosti væri kæran dregin til baka. Á fundi kærunefndar útboðsmála var beiðni Herjólfs hf. um frekari frest synjað og í ljósi þess að kæran væri þá dregin til baka ákvað nefndin að ekki yrði látið uppi efnislegt álit á útboði Vegagerðarinnar.

Vegna óvissu um stöðu málsins eftir að kæran hafði verið dregin til baka og vegna mjög alvarlegra yfirlýsinga um vinnubrögð Vegagerðarinnar í þessu máli ákvað vegamálastjóri að fara þess á leit, að kærunefnd útboðsmála gæfi eftir sem áður efnislegt álit þrátt fyrir að kæra stjórnar Herjólfs hf. hefði verið dregin til baka á síðustu stundu. Á þessa ósk vegamálastjóra var fallist og barst álit kærunefndar útboðsmála Vegagerðinni í gær þ.e. 26. október. Niðurstaða kærunefndar útboðsmála kemur skýrt fram í eftirfarandi ályktunarorðum:

"Ekkert er fram komið um að framkvæmd útboðs á rekstri Vestmannaeyjaferju 2001 - 2003 hafi verið háð annmörkum eða val útboðs hafi verið ólögmætt".

Með hliðsjón af þessu mun Vegagerðin undirrita samning í dag við Samskip hf. um rekstur Vestmannaeyjaferju.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum